137. löggjafarþing — 17. fundur,  9. júní 2009.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

82. mál
[15:12]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég kem upp til að svara einhverjum af þeim fyrirspurnum sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson beindi til mín í þessum umræðum um ábyrgðarmannakerfi Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

Hvað varðar síðustu spurningu hv. þingmanns um Icesave-samningana voru þeir auðvitað ræddir hér í gær og það er ljóst að þar er mjög erfið staða eins og hv. þingmanni er kunnugt og engin ein leið góð út úr því máli þar sem við undirgengumst ákveðnar skuldbindingar á alþjóðlegum vettvangi þegar við gerðumst aðilar að EES og gengumst undir tilskipanir Evrópusambandsins um innstæðutryggingar. Án þess að ég ætli að fara að orðlengja eitthvað um þá umræðu í umræðum um Lánasjóð íslenskra námsmanna segi ég að þar er auðvitað enginn kostur góður og hvernig sem fer verður málið mjög erfitt fyrir íslenskt samfélag. Það sem hér hefur verið bent á varðandi hugsanleg málaferli er þeim annmörkum háð að aðrar þjóðir geta neitað að taka þátt í þeim málaferlum og því hefur heldur ekki verið svarað hvað gerist ef við mundum ekki vinna málið og hver tilkostnaður okkar yrði þá. Það er ekkert einfalt í því máli og hvernig sem það fer, hv. þm. Birkir Jón Jónsson, held ég að það verði erfitt fyrir íslenskt samfélag, bara í ljósi þess sem hefur gerst. Þegar þessir bankar voru einkavæddir á sínum tíma, fyrir 20 milljarða kr., óraði kannski engan fyrir þeirri stöðu sem íslenskt samfélag yrði í 10 árum síðar. Það eru engin einföld svör við spurningum hv. þingmanns um Icesave en ég óttast að hver sem lausnin verði í því máli verði hún íslensku þjóðarbúi mjög þungbær. Hún hefur vafalaust áhrif á margt en það sem þó má segja að gefi gildi þessum samningi sem er rétt ókominn til umræðu í þinginu, þ.e. ríkisábyrgðin er rétt ókomin til umræðu í þinginu, er sá kostur að íslenskt samfélag fær þá möguleika til að rétta úr kútnum eftir allt annað sem hér hefur gengið á. Ég mun að öðru leyti geyma umræðu mína um þetta mál þangað til ábyrgðin kemur til kasta þingsins en ég ítreka að hér eru engar einfaldar eða góðar lausnir.

Hvað varðar lánasjóðinn er ljóst að staða hans er sú að í fjárlögum síðasta árs var gengið á eigið fé sjóðsins um 1 milljarð eins og hv. þingmaður benti á áðan og ætlunin er auðvitað sú að reyna að endurheimta þann milljarð. Ég tel hins vegar engar líkur til að það verði gert á einu ári, hvað þá á ári eins og núna þegar búist er við allt að 10% fjölgun námsmanna. Ég hef lagt áherslu á það í þeirri fjárlagavinnu sem fram hefur farið innan míns ráðuneytis að við stöndum vörð um LÍN því að hann skapar þá umgjörð sem er nauðsynleg á jafnrétti til náms. Ég vil að staðinn verði vörður um LÍN að því leyti að hann verði ekki skertur, hann verði ekki skorinn niður meira en orðið er nú þegar í síðustu fjárlögum. Vegna þess að eiginfjárstaða var þá skert þarf að reyna að vinna hægt og bítandi að því að endurheimta hana. Að öðru leyti verður sjóðurinn að vera reiðubúinn til að geta mætt hugsanlegri fjölgun námsmanna um allt að 10%. Ég tel mjög mikilvægt að við stöndum vörð um LÍN og reynum að höggva þar ekki í en ég á mjög erfitt með að lofa einhverri hækkun á framfærslugrunni eins og staðan er í ríkisfjármálum nú. Það segi ég bara heiðarlega, það sé ég a.m.k. ekki gerast í næstu fjárlögum, ekki nema þá að rætt verði eitthvert samspil Atvinnuleysistryggingasjóðs og Lánasjóðs íslenskra námsmanna og að þá verði skoðað sérstaklega hvort ríkið — og það er reyndar mín skoðun — sjái sér hag í því að veita fjármuni frekar í Lánasjóð íslenskra námsmanna en t.d. Atvinnuleysistryggingasjóð til að beina fólki í auknum mæli inn á menntabrautina.

Hvað varðar þann stakk sem okkur er sniðinn út frá því að við viljum ekki bæta í er ekki hægt að lofa hækkun á framfærslu. Von mín er sú að þegar allt dæmið er lagt saman, fjárlagaliðir allra ráðuneyta, getum við skoðað þar hugsanlega samspil þessara tveggja sjóða og hugsanlega forgangsraðað frekar í þágu menntunar.

Hvað varðar stöðu stúdenta núna í sumar og sumarnám hefur aðsókn í það ekki verið eins mikil og t.d. stúdentaráð Háskóla Íslands spáði. Stúdentaráð kannaði áhuga stúdenta. Spár okkar gerðu ráð fyrir talsvert minni ásókn en spár stúdentaráðs en eigi að síður hefur aðsókn ekki verið svo mikil og enn á eftir að koma í ljós hvort það er vísbending um að stúdentar hafi þá fengið vinnu sem þeir áttu ekki von á eða hvort þeir séu atvinnulausir en hafi kosið að fara ekki í nám af einhverjum orsökum. Þar komum við enn og aftur að samspili þessara tveggja ráðuneyta. Eins og ég gerði reyndar hv. þingmanni grein fyrir í svari við fyrirspurninni sem hann vísaði í áðan lá auðvitað ljóst fyrir frá byrjun hverjar reglur lánasjóðsins yrðu um sumarnám, þær voru kynntar um leið og það var kynnt hvaða einingafjölda þyrfti að taka til að uppfylla lánshæfisskilyrði. Hins vegar hefur að mínu mati ekki verið nægilegt samtal í gangi milli menntamála- og félagsmálaráðuneytis um það hvenær fólk er í raun og veru á milli þessara tveggja kerfa og uppfyllir hvorki skilyrði fyrir láni úr lánasjóðnum né á rétt á atvinnuleysisbótum. Sú vinna er farin af stað en enn er ekki komin niðurstaða í hana þannig að við þurfum að sjá hvernig hún mun skila sér. Þetta er að hluta til erfitt af því að kerfin eru byggð upp á ólíkan hátt. Við ræðum hér um framfærslugrunn einstaklinga sem er rúmlega 100.000 kr. Staðan gjörbreytist hjá lánasjóðnum ef maður er t.d. orðinn einstaklingur með tvö börn svo dæmi sé tekið, þá hækkar maður umtalsvert og mun meira en ef maður er einstaklingur með tvö börn á grunnatvinnuleysisbótum. Uppbygging þessara tveggja sjóða er líka ólík sem gerir það að verkum að það þarf að greiða línurnar í samtali þeirra á milli um hvernig þeir skipuleggja sig. Þetta hefur verið skoðað en mitt mat er að það megi skoða betur.

Hvað varðar spurningar þingmannsins um Nýsköpunarsjóð er búið að auglýsa hann og þá aukafjárveitingu sem var sett í Nýsköpunarsjóð námsmanna. Ég þekki ekki hvort búið er að veita styrkina en ég veit að þeir voru auglýstir um leið og þetta var tilkynnt og mér skilst að talsverður fjöldi umsókna hafi borist enda mjög margir sem sóttu um í fyrri úthlutun og fengu ekki. Ég fékk þær upplýsingar að það hefði verið heilmikið um góð verkefni sem hefðu uppfyllt skilyrði sjóðsins en sennilega ekki fengið út af ónógu fjármagni, enda mjög margar umsóknir. Þar verða væntanlega nokkur verkefni sem munu fara af stað.

Hvað varðar mánaðargreiðslurnar sem hv. þingmaður nefndi er alveg ljóst að ég hef talað gegn þessu svokallaða yfirdráttarkerfi þar sem námsmaður tekur yfirdráttarlán og þiggur svo vaxtastyrk frá ríkinu til að greiða vextina af láninu en fær síðan námslánið sjálft afgreitt í lok annar. Þetta hefur verið kannað innan stjórnar lánasjóðsins og ég á von á því að sjá niðurstöður þaðan samhliða því að nýjar úthlutunarreglur verða lagðar fyrir ráðherra. Frumathugun hefur sýnt að yfirfærslan sjálf á milli kerfa kostar umtalsverða peninga, 3–5 milljarðar hafa verið nefndir, þ.e. það ár sem skipt er úr núverandi kerfi yfir í samtímagreiðslukerfið. Ég ætla ekki að taka ábyrgð á tölunni þar sem ég er ekki búin að sjá útreikninga stjórnarinnar á þessu. Yfirfærslan sjálf kostar umtalsvert. Það væri auðvitað æskilegt ef við gætum séð þetta verða að veruleika á næstu árum, en ég held að við þurfum að hafa það í huga að við gerum það þegar færi er á. Kerfið hér hefur verið algerlega frábrugðið því sem hefur tíðkast annars staðar á Norðurlöndum eins og ég reyndar benti á í þingmáli, líklega á síðasta ári, þar sem farin hefur verið sú leið að hafa samtímagreiðslur þar sem gefin eru út skuldabréf fyrir greiðslunum sem námsmenn endurgreiða.

Heimturnar af slíku kerfi sýnast mér samkvæmt tölum frá Norðurlöndunum vera allt eins góðar. Þar er að vísu um lægri lán að ræða oft og tíðum, þ.e. samblöndun styrkja og lána, og jafnvel lægri heildartölu en verið hefur hér á landi svo að því sé haldið til haga. Það er ekki allt alslæmt með íslenska lánasjóðinn. Hann kemur vel út miðað við Norðurlöndin þegar horft er á sjálfan framfærslugrunninn þó að okkur finnist hann bágborinn. Þetta er nokkuð sem ég tel að við þurfum að skoða en þó þarf að hafa í huga að það gæti kostað sitt að fara í þau skipti.