137. löggjafarþing — 17. fundur,  9. júní 2009.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

82. mál
[15:37]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég nefndi það eða kom talsvert inn á heildarmyndina eins skýr og hún liggur fyrir í ræðu minni áðan þegar ég annars vegar fór yfir málið og hins vegar svaraði fyrirspurnum hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar. En þegar ég segi að hugsanlegar afskriftir kunni að falla á sjóðinn 2012 þá er þar um að ræða 20 millj. kr. sem gert er ráð fyrir og það er hátt áætlað. Það hefur því ekki áhrif á hækkun á framfærslugrunni námsmanna. Þar erum við að ræða um mun stærri tölu.

Þetta eru svartsýnisspár þannig að hér er ekki gert ráð fyrir verulegum kostnaðarauka út af þessu frumvarpi. Það eina sem ég vildi árétta í máli mínu áðan var að þær falla í fyrsta lagi árið 2012 sem gefur þá ákveðið svigrúm líka í þeim efnum. Það er ekki verið að efna til neins útgjaldaauka að sinni.

Að koma þessu máli í gegn er að mínu viti bæði réttlætismál og styrkir stöðu lánasjóðsins sem félagslegs jöfnunarsjóðs að hluta en stuðlar líka að því að námsmenn verði ábyrgir fyrir eigin lánum og ekki sé gengið á ábyrgðarmenn því að það er staðan núna. Og það var auðvitað orsök þess að sett voru ný lög um ábyrgðarmenn að við sjáum fram á efnahagsþrengingar sem munu hafa veruleg áhrif og verða til þess að gengið er á ábyrgðarmenn umfram aðra og ég held að þetta sé bara liður í því líka að taka út það kerfi heildstætt.

Hvað varðar heildarmyndina sem hv. þingmaður kallar eftir, þá fór ég yfir hana að hluta, ég held að það séu mjög mörg brýn mál fram undan, en þar sagði ég þó eitt og það er að standa verður vörð um lánasjóðinn á svona tímum vegna þess að hann skapar umgjörðina um háskólanámið og stöðu námsmanna.