137. löggjafarþing — 17. fundur,  9. júní 2009.

samningsveð.

39. mál
[15:51]
Horfa

Flm. (Lilja Mósesdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um samningsveð, nr. 75/1997. Auk mín flytja þetta mál hv. þingmenn Álfheiður Ingadóttir, Björn Valur Gíslason, Þór Saari, Birgitta Jónsdóttir og Eygló Harðardóttir.

Lagt er til í frumvarpinu að fasteignaveðlán geti ekki orðið grundvöllur aðfarar í öðrum eignum lántaka en þeim sem veðréttindin taka til. Þess ber að geta að í þessu frumvarpi felst frávik frá þeirri meginreglu íslensks kröfuréttar að skuldari ábyrgist endurfjárkröfu með öllum eignum sínum. Öllum á hins vegar að vera ljóst með því bara að standa hér og hlusta á hávaðann sem berst inn frá Austurvelli að aðstæður á Íslandi eru mjög óvenjulegar. Í haust hrundi hér heilt bankakerfi og allar forsendur á bak við mikla skuldsetningu heimilanna brustu. Þetta frumvarp er samið m.a. til þess að koma til móts við þá stöðu.

Samkvæmt frumvarpinu á lántaki jafnframt að vera laus undan persónulegri ábyrgð á greiðslu lánsins ef veðið hrekkur ekki til. Þá skiptir ekki máli hvort veðsali er lántaki eða einhver annar aðili. Í greinargerðinni er lánveitandi skilgreindur sem viðskiptabanki, sparisjóður, Íbúðalánasjóður, lífeyrissjóður og aðrir aðilar sem veita fasteignalán í atvinnuskyni, þar með taldir byggingaraðilar. Frumvarpið nær til veðlána sem veitt eru með veði í fasteign sem ætluð er til búsetu og það skilyrði er sett að lántaki sé einstaklingur.

Eins og margoft hefur komið fram í þingsölum er staða margra íslenskra heimila mjög erfið og má það m.a. rekja til hruns bankakerfisins. Þetta hrun leiddi til hækkunar skulda heimilanna, rýrnunar eigna, minni tekna og skerts aðgangs að lánsfjármagni. Við núverandi aðstæður er því mikil hætta á að kröfuhafar sækist eftir auknum tryggingum eða geri fjárnám í óveðsettum eignum. Það getur ekki talist sanngjarnt þar sem mörg heimili hefðu efnt skuldbindingar sínar undir eðlilegri kringumstæðum. Hér er því með öðrum orðum um mikið hagsmunamál fyrir íslensk heimili að ræða.

Nauðsynlegt er þó að taka fram að frumvarpið er ekki í andstöðu við eignarréttarákvæði stjórnarskrár þar sem stærstu lánastofnanir eru nú í eigu ríkisins auk þess sem lögin heimila Íbúðalánasjóði að yfirtaka skuldabréf fjármálafyrirtækja sem tryggð eru með veði í íbúðarhúsnæði.

Ég vil að lokum geta þess að þetta frumvarp gæti, til lengri tíma litið, orðið til þess að stuðla að vandaðri lánastarfsemi og hvetur til þess að lánveitingar taki mið af greiðslugetu lántaka.

Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. allsherjarnefndar að lokinni umræðu í þingsal.