137. löggjafarþing — 17. fundur,  9. júní 2009.

samningsveð.

39. mál
[15:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um samningsveð sem felst aðallega í því að takmarka eignarrétt þeirra sem eiga íbúðarhúsnæði þannig að þeir geti ekki veðsett það nema fyrir ákveðnum kröfum og þeir sem eiga kröfurnar geti ekki gengið á aðrar eignir skuldarans og því verður miklu erfiðara að fá lán eftir þessa breytingu en áður.

Afleiðing af þessu frumvarpi verður væntanlega sú að lánveitendur; lífeyrissjóðir, bankar og aðrir munu gera miklu stífari kröfu um veð, þ.e. þeir munu ekki lána upp í 80, 90% heldur miklu minna vegna þess að þeir þurfa að reikna með því að ef lækkun verður á fasteigninni tapist krafan. Það er enginn sem vill tapa, ekki einu sinni ríkisbanki því að hann fer jú með annarra manna fé, þ.e. fé skattgreiðenda eða þá sparifjáreigenda eftir atvikum, hér er því um að ræða verulega takmörkun á eignarrétti.

Það getur í sjálfu sér alveg verið réttmætt sjónarmið hjá þeim sem trúa á að eignarrétturinn eigi ekki að vera neitt sérstaklega sterkur og hann eigi að takmarka eins og hægt er. En ég vil benda á að t.d. úti á landi þar sem menn hafa byggt, og ég þekki dæmi þess að maður átti 5 milljónir og byggði sér hús úti á landi sem kostaði 20 milljónir, fékk sem sagt 15 milljónir lánaðar. Hann gat selt húsið daginn eftir á 10 milljónir. Hann hefði aldrei fengið lán úti á landi nema kannski 8 milljónir og þá hefði hann ekki getað byggt þetta hús. En það getur vel verið að það sé líka markmiðið með þessu að vera ekkert að plata fólk til þess að byggja hús sem rýrnar jafnmikið í verði og þarna er um að ræða. En svona hefur ástandið verið úti á landi í áratugi og enginn svo sem verið að gera neitt sérstakt veður út af því þó að menn geri mikið veður út af því að nákvæmlega sami hluturinn gerist hér á höfuðborgarsvæðinu en það sýnir kannski afstöðu manna til landsbyggðarinnar.

Það er tiltölulega auðvelt að fara fram hjá þessu og ég reikna með að það muni menn gera. Það er hægt að stofna hlutafélag eins og margir eru svo sem að gera t.d. með búrekstur, menn geta stofnað hlutafélag og leigt hjá félaginu sínu og þá er þetta allt saman í himnalagi og þá er það hlutafélagið sem er skuldarinn og í sjálfu sér breytist ekki neitt. Menn geta líka átt íbúðir hver hjá öðrum, þ.e. ég get átt íbúð sem hv. þm. Lilja Mósesdóttir býr í og hún ætti íbúðina mína og við skiptumst á um að búa í íbúðunum og þá komumst við fram hjá þessu, þannig að það er í sjálfu sér í lagi.

Svo segir hv. þingmaður, eða gat þess í framsögu, að þetta væri ekki brot á eignarrétti af því að allir lánveitendur í landinu væru í ríkiseigu. Í fyrsta lagi ber okkur náttúrlega sem þingmönnum að fara vel með skattfé og ekki tala svona ógætilega um að tapa því. Svo gleymist það að lífeyrissjóðirnir eru ekki ríkisfyrirtæki og þeir eiga jú töluverðan hluta af veðum í fasteignum sem hugsanlega kunna að tapast. Þessi fullyrðing er því ekki að öllu leyti rétt. Þeir mundu tapa umtalsvert t.d. núna ef verðlækkunin verður mikið meiri, sem ég vona að verði ekki, þá munu lífeyrissjóðirnir fara að tapa og þurfa þá að skerða lífeyri til lífeyrisþega sinna umfram það sem gert hefur verið og er verið að gera, nema náttúrlega hjá lífeyrissjóði þingmanna sem er opinber og þar eru réttindin föst, ég hef nefnt að líka.

Þetta frumvarp mun gera fólki miklu erfiðara fyrir að koma sér upp eigin húsnæði. Svo má ekki gleyma því, frú forseti, að mjög margir Íslendingar eru með sjálfstæða starfsemi. Það eru trillukarlar, það eru vörubílstjórar, það eru bændur og fleiri sem eru með sjálfstæða starfsemi eða með smáan atvinnurekstur sem þeir gjarnan vilja fjármagna og hér eftir, eftir að þetta hefur verið samþykkt, ef það verður samþykkt, þá gætu þeir ekki tekið lán út á íbúðarhúsnæði sitt og gætu þar af leiðandi margir hverjir ekki farið út þennan rekstur, það er bara svo einfalt. Þeir eiga kannski ákveðna eign, eiga hana jafnvel skuldlausa en þeir gætu ekki notað hana til þess að starta rekstri sem þeir ella hefðu gert. Ég hygg því að þetta frumvarp, ef samþykkt yrði, mundi takmarka mikið fjárfestingu í smáfyrirtækjum einmitt, sem sumir, þar á meðal Vinstri grænir, hafa verið að básúna sem bjargvætt í því að stuðla að atvinnusköpun í þjóðfélaginu.

Ég held því að þegar grannt er skoðað, og ég skora á hv. nefnd sem fær þetta frumvarp til umsagnar eða meðhöndlunar og vinnslu, að skoða þá galla og athugasemdir sem ég hef gert við þetta þannig að ekki verði af þessu eitthvert ólán.