137. löggjafarþing — 17. fundur,  9. júní 2009.

samningsveð.

39. mál
[16:02]
Horfa

Arndís Soffía Sigurðardóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að með þessu frumvarpi til laga um breytingu á lögum um samningsveð sé reynt að leita leiða til að rétta hlut íslenskra heimila eftir hrunið. Hér eru þó uppi ýmis álitaefni sem mig langar til þess að koma á framfæri fyrir þá nefndarvinnu sem fram undan er.

Í fyrsta lagi finnst mér að með frumvarpinu sé gengið út frá því að lánveitendur séu bankar eða lánasjóðir á forræði ríkissjóðs. Staðreyndin er hins vegar sú að veðskuldir eru ekki allar í eigu fjármálastofnana og fjármálastofnanir eru ekki allar í eigu ríkisins. Það eru einmitt smærri lögaðilar og jafnvel einstaklingar sem fá frekar veðrétt aftar í veðröðinni. Þess vegna vaknar sú spurning hvort sú breyting sem við ræðum nú mundi bitna mest á þeim sem eru aftast í veðröðinni.

Í öðru lagi tel ég að umrædd breyting á lögum um samningsveð geti leitt til þess að veðhlutfallið hækki og þar með aukist áhætta banka á tapi. Gerist það hef ég áhyggjur af því að bankar dragi frekar lappirnar við að semja um að fresta greiðslum eða afborgunum af höfuðstól lána vegna tímabundinna greiðsluerfiðleika.

Í þriðja lagi sé ég fyrir mér að frávik frá þeirri meginreglu íslensks kröfuréttur að skuldari ábyrgist efndir fjárkröfu með öllum sínum eignum þannig að fasteignaveðlán geti ekki orðið grundvöllur aðfarar í öðrum eignum lántaka, gagnist í raun helst þeim sem eiga eignir til viðbótar húsnæði sínu. Með breytingunni óttast ég að stóreignafólk fái í raun forskot á þá sem eignaminni eru.

Eins og fyrr segir fagna ég frumvarpinu og ég vona að unnt verði að vinna að farsælli lausn á þessum athugasemdum mínum í nefnd.