137. löggjafarþing — 17. fundur,  9. júní 2009.

samningsveð.

39. mál
[16:04]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Bhr):

Frú forseti. Ég fagna sömuleiðis þessu frumvarpi. Það er mjög mikið réttlætismál að fólk geti skilað inn lyklunum sínum og byrjað upp á nýtt. Það mun líka vera hvetjandi fyrir þann fjölda Íslendinga sem ákveðið hefur að flytja frá Íslandi. Það tryggir kannski að þeir geti komið heim aftur án þess að eiga á hættu að vera hundeltir um aldur og ævi af lánardrottnum sínum. Nú til dags er mjög auðvelt að fá kröfurnar alltaf endurvaktar vegna þess að nú er allt kerfið orðið stafrænt. Það væri kannski erfiðara og dýrara fyrir þá sem eru eigendur skuldanna að halda þessu við. Ekki það að ég sé því fylgjandi að skuldareigandinn eigi að bera allan skaða en mér finnst þetta vera mjög mikilvægt frumvarp, sérstaklega á þessum tímum þegar svo margir eru í erfiðleikum.

Ég talaði við mann áðan hér úti sem er 62 ára gamall og er að missa allt sem hann á. Það er náttúrlega ömurlegt þegar maður er búinn að vinna fyrir þaki yfir höfuðið og ætlar að eiga náðugt líf eftir að maður hættir að vinna að missa allt úr höndunum á sér. Það eru margir í stöðu þessa manns. Mér finnst því bara ánægjulegt að verið sé að líta til þessa hóps og koma með einhverjar raunverulegar lausnir.