137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

stuðningur við Icesave-samkomulagið.

[10:34]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Þetta var ekki fullnægjandi svar frá hæstv. forsætisráðherra. Ég spurði að því sérstaklega hvort gengið hafi verið úr skugga um það þegar samningamönnum Íslands var fengið það umboð að skrifa undir að það væri meirihlutavilji í sölum Alþingis fyrir slíkri undirskrift. Með öðrum orðum, að það væru nægilega margir þingmenn stjórnarliðsins að baki slíkri ákvörðun. Það eitt og sér dugar ekki t.d. að meiri hluti þingmanna Vinstri grænna hafi gefið grænt ljós á þessa ákvörðun, það verður að hafa verið þannig að nægilega margir þingmenn hafi verið að baki. Því spyr ég enn og aftur: Var gengið úr skugga um það af hálfu forsætisráðherra og ríkisstjórnarinnar að slíkur meiri hluti væri til staðar í þinginu þegar samningamönnunum var heimilað að setja stafina sína undir þetta samkomulag? Þetta skiptir miklu máli.