137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

Icesave og gengi krónunnar.

[10:38]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Hv. þingmaður er svona endranær heldur skýr í máli, en ég gerði mér ekki alveg grein fyrir því hvort hv. þingmaður væri hér með almennar hugleiðingar eða hvort hann væri að varpa spurningu til utanríkisráðherra. Það var enga spurningu að finna í máli hv. ræðumanns. (Gripið fram í.) Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson velti því fyrir sér með hverju ætti að borga þessar skuldir og hann vísaði til Icesave-skuldanna. Það hefur komið alveg skýrt fram í umræðunni að gert er ráð fyrir samkvæmt mati að þær eignir sem er að finna hjá Landsbankanum dugi fyrir 75–95% skuldanna. (Gripið fram í.) Það hefur komið fram. Síðan hafa jafnframt komið fram upplýsingar sem benda til þess að eignirnar séu töluvert miklu meiri en menn telja þegar búið er að taka frá það sem menn telja að kunni að vera veikur partur þessara eigna. Ég hef fulla trú á því að þegar upp er staðið muni dómsdagsspár hv. þingmanns ekki rætast. Hann notar hvert tækifæri til að koma og útausa þeim skoðunum að hér sé alltaf allt að fara til fjandans. Ég er honum algerlega ósammála. Ég held að það væri bæði honum og flokki hans farsælla ef hann sæi einhvern tíma eitthvert ljós. (Gripið fram í.) En formaður Framsóknarflokksins sér ekkert jákvætt í stöðunni, það er ekkert jákvætt hjá íslensku samfélagi þó að staðreyndin sé samt sem áður sú að miðað við þá erfiðu stöðu sem við erum í og erum að fara í gegnum, hafa Íslendingar meiri möguleika en þjóðir sem eru í samsvarandi stöðu til að ná sér út úr þeim erfiðleikum sem við erum stödd í. Það er staðreyndin. Ég held að jafnvel þótt enn fleiri predikanir af hálfu hv. þingmanns um að hér sé allt að fara til andskotans komi fram muni það ekki duga til að draga kraftinn og þróttinn úr íslenskri þjóð. En það virðist sem það sé aðalerindi hv. þingmanns í ræðustól dag eftir dag.