137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

Icesave og gengi krónunnar.

[10:41]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Erindið er ekki að draga þróttinn úr þjóðinni. Erindið er að koma ríkisstjórninni frá því að þessi ríkisstjórn er stórhættuleg framtíð þjóðarinnar. Ef þetta samkomulag verður undirritað kemur á daginn í þessu eins og í svokölluðum dómsdagsspám, sem ráðherra kallar svo fram að þessu, að því miður verður svarta myndin ofan á. Það er alveg rétt sem ráðherrann sagði, Íslendingar hafa miklu meiri tækifæri en flestallar aðrar þjóðir til að vinna sig upp úr vandanum en það er háð því að það vinni með okkur, sem er okkar stærsti styrkleiki í þessari efnahagskreppu, að það eru ekki lentar á þjóðinni þær skuldir sem yfir henni hanga. Ef ríkisstjórnin ætlar að kippa í spottann svo það farg sem yfir okkur hangir falli ofan á þjóðina, verður ekki aftur snúið, þá þýðir ekki að reyna að bjarga efnahagsástandinu með einhverju bjartsýnishjali. Ef við hins vegar tökum á vandanum eru tækifærin til staðar en þessi ríkisstjórn mun ekki að gera það.