137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

ummæli Evu Joly.

[10:43]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil beina fyrirspurn minni til hæstv. forsætisráðherra vegna ummæla Evu Joly, ráðgjafa sérstaks saksóknara, í Kastljósi í gærkvöldi. Þar kom fram að hún teldi rannsókn á bankahruninu í uppnámi vegna þess að ekki væru veittir nægilegir fjármunir í rannsóknina. Sagðist hún jafnframt ekki muni leggja nafn sitt við áframhaldandi vinnu ef úr þessu yrði ekki bætt.

Ég sé síðan haft eftir hæstv. dómsmálaráðherra í fjölmiðlum í morgun að hún taki þessa gagnrýni alvarlega. Það er auðvitað gott svo langt sem það nær. Ég tel afar mikilvægt að taka þessar athugasemdir Evu Joly alvarlega enda nýtur hún trausts bæði innan lands og utan fyrir störf sín. Það er mikilvægt að nýta krafta hennar og reynslu og það er ljóst að margir binda miklar vonir við störf hennar.

Hún telur rannsóknina á íslenska bankahruninu einhverja mikilvægustu rannsókn allra tíma í Evrópu og því ljóst að hér eru gríðarlega miklir hagsmunir í húfi. Hún telur jafnframt nauðsynlegt að ríkissaksóknari víki með öllu vegna vanhæfis. Því vil ég jafnframt spyrja hæstv. ráðherra um skoðun hennar á því máli.

Það er ljóst að mikil tortryggni ríkir í samfélaginu og rannsókn á bankahruninu er liður í því að byggja aftur upp traust milli manna í okkar ágæta samfélagi. Hér mun aldrei nást sátt eða verða hægt að byggja aftur upp traust nema þeir sem sökina bera verði fundnir og sóttir til saka. Almenningur treystir Evu Joly og því er það mín skoðun að við eigum að gera allt sem við getum til að tryggja henni þá starfsaðstöðu sem hún telur ásættanlega fyrir framgang rannsóknarinnar.

Spurning mín er því þessi: Hvað hyggjast hæstv. forsætisráðherra og hæstv. ríkisstjórn gera í þessu máli?