137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

endurskoðun á stöðu embættismanna.

[10:51]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir það með hv. fyrirspyrjanda að það fyrirkomulag sem við búum við að því varðar þessar embættisveitingar er óviðunandi. Ég vil líka taka undir það með hv. fyrirspyrjanda að það fyrirkomulag þarf að endurskoða. Það hefur reyndar verið gert og á nú árinu 2009 eimir enn eftir af því að hér séu æviráðningar hjá embættismönnum og lítið hægt að hagga við þeim. Það dugar auðvitað ekki og þarf að endurskoða.

Þetta er eitthvað sem við þurfum að taka til endurskoðunar ásamt því að skoða allar embættisveitingar í stjórnkerfinu alveg frá grunni, hvernig taka á á þeim. Það á auðvitað að auglýsa stöður embætta í stjórnkerfinu og standa faglega að málum. Ég tel að þessi ríkisstjórn hafi gert það og minni þar t.d. á stöðu seðlabankastjóra. (Gripið fram í.)

Að því er varðar þá tvo ráðuneytisstjóra sem hér um ræðir var þetta niðurstaðan sem ég hygg að aðilar verði, miðað við aðstæður, að una við og geti unað við. Ég sá það í Morgunblaðinu í dag að sá ráðuneytisstjóri sem var í forsætisráðuneytinu unir sæmilega við það hlutverk sitt að vera orðinn ráðuneytisstjóri í félagsmálaráðuneytinu. En það eru ráðuneytisstjórarnir sem eru ráðnir með þau kjör sem þeir hafa, og reyndar fleiri, sem ráða raunverulega ferðinni í þessu máli.

Það er ekki hægt að taka á þessum málum öðruvísi en með margra milljóna og tugmilljóna króna starfslokasamningi ef viðkomandi ráðherra telur nauðsynlegt af einhverjum ástæðum að breyta um ráðuneytisstjóra. Það er óviðunandi fyrirkomulag þannig að ég tek undir það með hv. fyrirspyrjanda (Forseti hringir.) að það er nauðsynlegt að endurskoða þetta fyrirkomulag frá grunni.