137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

atvinnumál og atvinnustefna ríkisstjórnarinnar.

[11:01]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við Íslendingar stöndum á tímamótum, við stöndum frammi fyrir því verkefni að endurreisa efnahag landsins. Við það starf er þörf á hugrökku fólki sem þorir að taka ákvarðanir og þeir sem halda um stjórnartaumana bera mikla ábyrgð gagnvart þjóðinni og framtíð hennar.

Enginn Íslendingur hefur farið varhluta af þeim efnahagsþrengingum sem geisað hafa hér á landi. Fjöldi manns hefur misst atvinnu sína og í dag eru atvinnulausir um 19 þúsund talsins. Atvinnuleysi er ekki þolandi og við skulum aldrei sætta okkur við að það verði viðvarandi.

Í stjórnarsáttmála vinstri flokkanna kemur fram að þegar hafi verið ráðist í aðgerðir til að sporna gegn atvinnuleysi. Þær aðgerðir eiga að skila 6 þúsund ársverkum á næstu mánuðum og missirum. Jafnframt kemur fram í atvinnumálakafla stjórnarflokkanna að allar aðgerðir taki mið af ólíkri stöðu kynjanna og mismunandi áhrifum á byggðir landsins.

Í máli hæstv. iðnaðarráðherra í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi á dögunum kom fram að aðgerðir til að uppfylla það markmið að skapa þessi 6 þúsund störf væru þegar farnar að skila árangri. Í ljósi þessa beini ég þeirri fyrirspurn til hæstv. iðnaðarráðherra: Hversu hátt hlutfall þessara 6 þúsund starfa er þegar komið til, hvernig skiptast þau með tilliti til ólíkrar stöðu kynjanna og byggðar landsins og í hvaða atvinnugreinum hafa störfin skapast?

Virðulegi forseti. Ég tel að við Íslendingar eigum fjölmörg tækifæri til að byggja hér upp sterkt og öflugt atvinnulíf til framtíðar. Forsenda þess að við náum tökum á verkefninu er að sjálfsögðu sú að ríkisstjórnin einbeiti sér að þeim verkefnum sem fyrir liggja, í fyrsta lagi að ná tökum á ríkisfjármálunum og í öðru lagi að ljúka við endurreisn bankanna. Hlúa þarf að þeim fyrirtækjum sem þegar eru starfandi og eru rekstrarhæf en jafnframt þarf að sækja fram og leita nýrra tækifæra sem geta skapað meiri gjaldeyristekjur. Sóknin til framtíðar verður byggð á okkar helstu styrkleikum sem eru aldurssamsetning þjóðarinnar, að menntunarstig er hátt hér á landi, innviðir þjóðfélagsins eru sterkir, grunnatvinnuvegirnir eru sterkir og við eigum gnótt af orku í iðrum jarðar.

Aldrei í sögu lýðveldisins hefur verið mikilvægara að koma á frekari atvinnuuppbyggingu hér á landi. Erlendir fjárfestar hafa sýnt mikinn áhuga á að koma hingað til lands að sinna ýmsum verkefnum tengdum orkufrekum iðnaði. Fjárfestar reka sig hins vegar á ýmsar hindranir í íslenskri stjórnsýslu gegn því að verkefnin komist í framkvæmd. Brýnt er að taka á þessu sem fyrst og liðka til fyrir því að erlent fjármagn streymi til landsins til að byggja upp atvinnutæki framtíðarinnar og skapa auknar gjaldeyristekjur.

Helstu hindranirnar felast í því að ekki liggur fyrir rammalöggjöf um ívilnanir. Óvissa er um skattumhverfið sem veldur óróa meðal fjárfesta. Óvissa er um framboð orku sem veldur ákveðnum vanda og jafnframt er umhverfismatsferlið óljóst, tímafrestir ekki virtir og þetta hefur þegar leitt til þess að fjárfestar hafa horfið héðan með stór verkefni sem virkilega hefði skipt máli að hér væru til staðar í dag.

Nú hefur hæstv. iðnaðarráðherra að því er mér skilst í fjölmiðlum sett á fót sérfræðingahóp til að leggja fram áætlun að því hvernig megi greiða fyrir þessu máli og hópurinn á að skila niðurstöðum sínum um áramót. Ég leyfi mér að halda því fram að sá tími sem hópurinn hefur til umfjöllunar sé of langur og leiði til þess að við töpum af enn fleiri tækifærum.

Virðulegi forseti. Ef maður skoðar verk ríkisstjórnarinnar í heild virðist atvinnustefna hennar felast í ákveðinni óvissu. Sá skaði sem áform ríkisstjórnarinnar um að fara svokallaða fyrningarleið í sjávarútvegi hefur valdið miklum skaða nú þegar í þeirri grein og vegið að rótum okkar grundvallaratvinnugreinar. Þá ríkir jafnframt óvissa innan landbúnaðargeirans vegna áforma Samfylkingarinnar um að ganga inn í Evrópusambandið. Afgreiðsla umsóknar ORF Líftækni um sáningu á erfðabreyttu byggi sem gæti skapað okkur miklar gjaldeyristekjur til framtíðar, hefur verið dregin á langinn. Hugmyndir orkufyrirtækjanna um aðkomu krónubréfaeigenda að fjárfestingum, t.d. í Búðarhálsvirkjun, fá ekki undirtektir eða svör í fjármálaráðuneytinu. Erindi Heilsufélags Reykjaness til heilbrigðisráðherra vegna atvinnusköpunar í heilsutengdri þjónustu er ekki svarað. Virkjunaráform í neðri hluta Þjórsár eru í frysti vegna afskipta umhverfisráðherra af skipulagsmálum sveitarfélaga. Útgáfa rannsóknarleyfa vegna hugsanlegrar orkunýtingar framtíðarinnar eru ekki gefin út.

Óneitanlega vakna áhyggjur og spurningar um það hvert sé stefnt. Er einhver stefna í gangi? Allt eru þetta verkefni sem geta skapað þjóðarbúinu gríðarlegar gjaldeyristekjur. Því spyr ég hæstv. iðnaðarráðherra: Í hverju er atvinnustefna ríkisstjórnarinnar fólgin?