137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

atvinnumál og atvinnustefna ríkisstjórnarinnar.

[11:11]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu um atvinnumál sem hér hefur farið fram. Ég vil byrja á að taka undir með hæstv. iðnaðarráðherra um að það sé nauðsynlegt að halda á lofti góðum hugmyndum, ekki síst í atvinnumálum. Hæstv. iðnaðarráðherra hefur sagt okkur frá um 6 þúsund starfa átaki og sundurliðun þeirra starfa sem unnið er að í ráðuneytinu og mun koma fram í næstu viku, vonandi.

Svolítið hljómar þetta þó eins og margt annað sem við höfum heyrt frá ríkisstjórninni, eins og t.d. um endurreisn bankanna sem hefur alltaf verið á döfinni í næsta mánuði eða í þar næstu viku. Vonandi mun ríkisstjórnin standa við þessi áform, það er afar mikilvægt og ekki síst fyrir atvinnulífið.

Við þurfum auðvitað að sjá fleiri hugmyndir um atvinnuuppbyggingu koma fram og það er ánægjulegt að í iðnaðarráðuneytinu skuli vera fleiri hugmyndir en oft áður, en við þurfum fyrst og fremst að sjá þær verða að veruleika. Það er líka nauðsynlegt að ríkisstjórnin tali einum rómi og sé samstiga í slíkum málum. Við höfum ekki efni á að horfa upp á atvinnutækifærin gufa upp eða glutrast niður vegna þess að stjórn og ráðherrar tali hver í sína áttina. Við höfum ekki efni á að sjá aftur afgreiðslu þáverandi hæstv. umhverfisráðherra Samfylkingarinnar að senda 500 störf kísilflöguverksmiðjunnar, sem rísa átti í Þorlákshöfn, til Kanada vegna þess að ekki var hægt að ákveða hvort umhverfismat tæki eitt, tvö eða þrjú ár. Við höfum ekki efni á að horfa upp á misvísandi yfirlýsingar hæstv. ráðherra um uppbyggingu í Helguvík, og þá á ég ekki við hæstv. iðnaðarráðherra heldur ýmsa aðra ráðherra. Við höfum heldur ekki ráð á því að sumir ráðherrar ríkisstjórnarinnar setji fótinn fyrir uppbyggingu á Bakka á meðan heimaaðilar berjast þar við að halda áfram ótrauðir sínu starfi. Við verðum, frú forseti, að hafa ríkisstjórn sem talar skýrt og stendur (Forseti hringir.) við orð sín. Við höfum ekki efni á að hafa ríkisstjórn sem talar um atvinnumál út og suður og norður og niður, eins og hér hefur verið sagt.