137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

atvinnumál og atvinnustefna ríkisstjórnarinnar.

[11:21]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Frú forseti. Ríkisstjórnin tekur í arf atvinnuleysi í sögulegu hámarki og atvinnulíf í miklum þrengingum í kjölfar hruns fjármálakerfisins. Atvinnustefna innan ríkisstjórnarinnar byggir á jafnræði atvinnugreina, jafnrétti kynjanna, heilbrigðum viðskiptaháttum og grænni atvinnuuppbyggingu í samræmi við hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar.

Þegar ég tala um sjálfbæra þróun meina ég ekki bara á sviði umhverfismála heldur líka á sviði atvinnumála. Ég vil víkja þar sérstaklega að ferðaþjónustunni. Hún getur gegnt lykilhlutverki við endurreisn atvinnulífs okkar. Atvinnugreinin er atvinnu- og gjaldeyrisskapandi en hins vegar má búast við því að hefðbundin ferðaþjónusta sé í vörn á heimsvísu og því er mikilvægt að Ísland bregðist við með einhverjum hætti. Innan ferðageirans er horft til heilsutengdar ferðaþjónustu en almenningur virðist síður spara við sig þegar kemur að því að sinna sjálfum sér andlega og líkamlega í heilsubótar- og í lækningaskyni. Ef við viljum byggja upp gott atvinnulíf á Íslandi þýðir ekki fyrir okkur að koma með stórar skyndilausnir. Margir og fjölbreyttir sprotar leiða til miklu sterkari undirstöðu en ef atvinnulífið þarf að treysta á eina atvinnugrein og afurðaverð innan hennar.

Umræðan um heilsulandið Ísland sýnir að náttúra landsins getur gegnt lykilhlutverki við uppbyggingu atvinnulífs, að gæta náttúru landsins og ímynd þess er þannig stærsta hagsmunamál þeirra sem vilja fjölga störfum á Íslandi. Það er villandi nálgun að setja fjölgun starfa og verndun umhverfis upp sem tvo andstæða póla í stjórnmálaumræðu.

Frú forseti. Við þingmenn og ráðherrar í miðju- og vinstri flokkum vorum öðrum þræði kosnir inn á þetta þing til að koma með nýjar lausnir. Við skuldum því kjósendum okkar að koma með leiðir sem horfa til nýrrar sóknar í atvinnumálum. Við verðum að geta staðið frammi fyrir hv. þingmönnum og fleirum í haust og vetur og mætt óskum þeirra um aðgerðir með ákveðnum hætti. En við umhverfissinnar og stuðningsmenn ferðaþjónustunnar ætlum einhvern tíma að geta staðið keikir, verið fastir fyrir og svarað andstæðingum okkar getum við ekki alltaf spilað á tilfinningar. Við verðum að tala tungumáli atvinnulífsins, tala um arðsemi og vísa til fjármuna en ekki til verndunar, tala um fjölda starfa á sama hátt og virkjunarsinnar tala um störf og afleidd störf. Hér á ríkið að koma inn með afgerandi hætti. Ef það er með hagrænum hvötum, uppfinningu lífeyrissjóðanna til arðbærra fjárfestingarverkefna í ferðaþjónustu, raunhæfum aðgerðum til að fá Orkustofnun að verkefnum í ferðaþjónustu, vil ég sjá slíkar aðgerðir strax.