137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

atvinnumál og atvinnustefna ríkisstjórnarinnar.

[11:23]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég vil líkt og aðrir þakka fyrir þessa umræðu sem er mjög mikilvæg. Það hljómar mjög vel þegar hæstv. iðnaðarráðherra segir úr ræðustóli Alþingis að ríkisstjórnin ætli sér að skapa 6 þúsund störf. Síðan koma aðrir stjórnarliðar og tala fyrir mikilli umhverfisvernd en 2 þúsund af þessum 6 þúsund störfum eru fólgin í atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð er á móti og einhver hluti Samfylkingarinnar. Í dag eru 19 þúsund Íslendingar atvinnulausir og við bíðum eftir áætlunum ríkisstjórnarinnar um það hvernig koma eigi til móts við þessa einstaklinga.

Hæstv. ráðherra segist í næstu viku ætla að koma með sundurliðun á þessum 6 þúsund störfum. Það er heldur seinna en áætlað var en það er ekki eina frestunin sem við þurfum að horfast í augu við. Það er ekki enn búið að endurskipuleggja íslenskt bankakerfi. Það átti að gera það í upphafi þessa árs en nú er árið hálfnað og við þurfum að heyra um endalausa fresti frá hæstv. ríkisstjórn. Við borgum því miður mjög háar greiðslur vegna aðgerðaleysisins, vegna þess m.a. að þessi ríkisstjórn hefur ekki mótað sér trúverðuga stefnu í efnahagsmálum þannig að stýrivextir Seðlabanka Íslands eru enn með þeim hæstu í heiminum og fyrir það geldur íslenskt atvinnulíf. Íslenskt atvinnulíf mun ekki vaxa og dafna í þeim stýrivöxtum sem blasa við okkur og íslenskt atvinnulíf mun heldur ekki vaxa og dafna þegar bankarnir hafa ekki verið endurskipulagðir en því hafa núverandi stjórnvöld frestað ítrekað um margra mánaða skeið.

Það er mjög dýr pakki aðgerðaleysis þessarar ríkisstjórnar sem blasir við íslensku atvinnulífi, íslenskum heimilum. Þegar hæstv. utanríkisráðherra talar um að við þingmenn Framsóknarflokksins höfum einhverja kolanámusýn og bregst illa við því aðhaldi sem við erum að reyna að veita (Forseti hringir.) ríkisstjórninni í efnahagsmálum finnst mér hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) vera pínusár yfir þeirri gagnrýni sem við höfum viðhaft hér (Forseti hringir.) en hún á fyllilega rétt á sér.