137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

atvinnumál og atvinnustefna ríkisstjórnarinnar.

[11:26]
Horfa

Arndís Soffía Sigurðardóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Á tímum sem þessum hlýtur það að vera forgangsverkefni stjórnvalda að sporna við atvinnuleysi en í febrúar á þessu ári nam atvinnuleysi 8,2% og var þá í sögulegu hámarki eftir hrun fjármálakerfisins. Samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Vinnumálastofnun er atvinnuleysi í dag 9% og fer aðeins sígandi sem er mikið fagnaðarefni. Það er gríðarlega mikilvægt að fjöldi Íslendinga verði ekki óvirkir á vinnumarkaði til lengri tíma því að það getur haft alvarlegar félagslegar afleiðingar í för með sér.

Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs kemur fram að meginverkefni ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum verði að draga úr atvinnuleysi með markvissum aðgerðum og að lögð verði áhersla á að skapa fjölbreytt atvinnulíf. Að mínu mati mun þó aðeins lítill hluti nýrra starfa verða til hjá hinu opinbera. Það er hins vegar verkefni stjórnmálamanna að verja þau störf sem til staðar eru og skapa skilyrði fyrir og stuðla að fjölbreyttri atvinnuuppbyggingu. Við verðum alltaf að muna að velferðarmál eru atvinnumál og því er mjög brýnt að standa vörð um velferðar- og menntakerfið. Starfsfólkið í velferðarkerfinu er að yfirgnæfandi meiri hluta konur. Samdráttur og skerðing í velferðarþjónustunni bitna því harkalega á kvennastéttum. Mikilvægt er að allar aðgerðir hins opinbera í þágu atvinnulífs taki mið af ólíkri stöðu kynjanna og mismunandi áhrifum á byggðir landsins. Það er þó alveg sama hversu fögur fyrirheit stjórnvalda eru í atvinnumálum. Það mun ekkert af þeim verða ef vextir fara ekki að lækka allverulega.

Eins og alþjóð varð vitni að voru stýrivextir Seðlabankans hækkaðir í 18% í kjölfar samstarfs fyrri stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem var komið á. Stýrivextir hafa nú verið lækkaðir niður í 12% en betur má ef duga skal. Ég bind miklar vonir við að þær aðgerðir í ríkisfjármálum sem lagðar verða fram nú á næstu dögum muni skila árangri hvað þetta varðar og hvetja til vaxtalækkana. Ég trúi því að vextir eigi eftir að geta lækkað hratt á næstu mánuðum og jákvæða hliðin á krónunni er þó að gengið hefur sjaldan verið eins hagstætt fyrir útflytjendur og innlenda framleiðslu. (Forseti hringir.)

Frú forseti. Að lokum vil ég segja að það er sannfæring mín að íslenskt atvinnulíf eigi eftir að rétta úr kútnum (Forseti hringir.) og eiga bjarta framtíð. Ég vil ekki trúa eða stefna að neinu öðru.