137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

atvinnumál og atvinnustefna ríkisstjórnarinnar.

[11:28]
Horfa

Þór Saari (Bhr):

Frú forseti. Mig langar að árétta að einhverju leyti það sem ég sagði áðan að áframhaldandi ríkisvæðing atvinnulífsins er ekki farsæl leið út úr þessu atvinnuleysi eða sem atvinnustefna. Að ríkið sé í stórframkvæmdum út og suður, gangist í ábyrgðir fyrir Landsvirkjun og fleiri fyrirtæki til að hægt sé að fara út í fleiri álversframkvæmdir er einfaldlega ekki farsæl leið. Það er hægt að gera hlutina miklu betur og á miklu uppbyggilegri hátt. Það þarf að búa til alvöruvirðisaukandi atvinnulíf. Það þarf ekki að eyða peningum í einhverjar fráleitar samgönguframkvæmdir eins og t.d. Sundabraut á þessu stigi. Hún skapar ekki mikinn virðisauka. Það er það sem þarf í dag.

Það þarf að fara inn í atvinnuleysisskrána, það þarf að bjóða fólki sem er á atvinnuleysisskrá að finna sér eitthvað til að hafa fyrir stafni einfaldlega með því að skipuleggja verkefnastjórnendur og verkefnahópa sem bjóða fólki þá auknar atvinnuleysisbætur á meðan það er að koma sér af stað út í samfélagið aftur. Langvarandi atvinnuleysi og rannsóknir í nágrannalöndum hafa sýnt að fólk sem er atvinnulaust jafnvel í sex mánuði á oft og tíðum mjög erfitt með að koma sér aftur út á vinnumarkaðinn til frambúðar. Hér höfum við allt í kringum okkur kynslóðir atvinnulausra þannig að það er brýnt að tekið verði á þessum málum sem fyrst, ekki að beðið verði eftir einhverri hugsanlegri stóriðju. Við vitum að sú efnahagsstefna að keyra efnahagslífið upp í topp með einni framkvæmd, svo hrynur allt aftur og þá er farið út í næstu og keyrt upp í topp, skapar einfaldlega ójafnvægi. Meiri áliðnaður í íslensku atvinnulífi veldur einfaldlega meiri ójöfnuði því að það þarf að skjóta undir það fleiri stoðum. Það á ekki að skjóta undir það færri og stærri stoðum heldur fjölbreyttari stoðum.