137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

atvinnumál og atvinnustefna ríkisstjórnarinnar.

[11:31]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil færa þeim sem lagt hafa orð í belg varðandi atvinnumál þakkir fyrir góða og gagnlega umræðu. Hins vegar var ekki öllum spurningum svarað um atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar þar sem greinilega er ekki alveg einhugur þar á bænum um það hvort við eigum að lifa á okkar landi og nýta tækifærin hér eða ekki.

Ég hlakka virkilega til að sjá þá sundurliðun sem iðnaðarráðuneytið er að vinna að varðandi 6 þúsund störfin og hrósa ráðherranum fyrir að leggja í þá vinnu og að ætla að leggja hana fram vonandi í næstu viku.

Þá er gott að heyra það að ég og hæstv. ráðherra deilum þeim væntingum til rammalöggjafarinnar varðandi ívilnanirnar að þær komi fram fyrr en áætlanir gera ráð fyrir. Og það er virkilega von mín að svo verði vegna þess að án þeirra eigum við eftir að tapa tækifærum.

Jafnframt langar mig að óska eftir því að ráðherrann upplýsi okkur um hvers vegna undirritun varðandi álverið í Helguvík er ekki lokið. Það er hægt að koma ferlinu lengra af stað. Það þarf ekki að bíða eftir ESA.

Það kom fram hjá hv. þm. Magnúsi Orra Schram að heilsutengd ferðaþjónusta væri framtíðin. Þess vegna væri ágætt að fá svar við þeirri spurningu: Hvers vegna leggur hv. þingmaður ekki sín lóð á vogarskálina til að flýta fyrir því að erindi heilsufélagsins á Suðurnesjum verði svarað í heilbrigðisráðuneytinu? Ég hvet þingmanninn til að beita sér í því máli. Þar er vissulega um einkaframkvæmd að ræða og kannski er hæstv. heilbrigðisráðherra ekki tilbúinn að ljá því lið.

Hér er jafnframt kallað eftir vaxtalækkun af hálfu þingmanna stjórnarliða. Vissulega erum við öll sammála um að það þarf vaxtalækkun, en það þarf fyrst að hafa hugrekki til að taka á í ríkisfjármálum. Það er númer eitt, tvö og þrjú. Jafnframt þarf að endurreisa bankana. Þetta eru stóru verkefnin og menn verða að átta sig á því.

Virðulegi forseti. Ég hef trú á því að við Íslendingar eigum eftir að byggja upp öflugt atvinnulíf að nýju og við eigum eftir að koma sterk út úr þessu. Ég hef trú á því vegna þess að hér býr hugrakkt fólk með öflugar hugmyndir og það eru einstaklingarnir sem koma til með að endurreisa efnahag landsins.