137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[11:57]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að byrja á því að segja að ég hef ekki verið talsmaður þess að við færum í flatan niðurskurð. Við höfum hins vegar talað um það bæði fyrir kosningar og í langan tíma að höfuðstólslækkanir væru það sem biði okkar og við höfum talað fyrir því að menn skoði það með opnum hug en fyrri ríkisstjórn sló það nánast algjörlega út af borðinu.

Hvað er átt við með jafnri meðferð við endurskipulagningu skulda fyrirtækjanna? Hér er auðvitað verið að snerta eitt allra viðkvæmasta málið í efnahagsuppbyggingunni sem við blasir. Við hljótum að vera sammála um að t.d. fyrirtæki sem eru álíka stödd mega ekki fá algjörlega ósambærilega meðferð í kerfinu þegar þau eiga í samskiptum við ríkisbankana. Við þurfum því að auka gagnsæið og setja skýrar reglur. Það er búið að vera að tala um það í langan tíma að bankarnir komi sér upp verklagsreglum. Kúnstin í þessu verður auðvitað alltaf sú að viðhalda samkeppninni, gefa bönkunum hæfilegt svigrúm til þess að meta getu stjórnenda félaganna til þess að endurreisa þau og leggja sjálfstætt mat á trúverðugleika þeirra viðskiptaáætlana sem liggja frammi án þess þó að gengið sé á það jafnræði sem nauðsynlegt er að ríki. Ég held að við náum því jafnræði best með því að reglurnar séu mátulega gagnsæjar en á sama tíma almennar. Það skortir almennar verklagsreglur um það hvaða heimildir bankarnir hafa t.d. til þess að fella niður skuldir á móti nýju eiginfjárframlagi frá eigendunum.

Þarna er t.d. átt við þátt sem mjög auðvelt er að æsa upp mikla mótstöðu gegn, vilji menn fara þá götuna, þ.e. að gera núverandi eigendum fyrirtækja kleift með nýju eiginfjárframlagi að fá felldar niður skuldir. Það eru gríðarlega viðkvæm mál, (Forseti hringir.) en valkosturinn er e.t.v. sá að meiri hluti fyrirtækjanna, allt að helmingur þeirra, endi í fanginu á ríkisbönkunum. Ég held að það væri skelfileg þróun.