137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[12:01]
Horfa

Flm. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Verið er að drýgja hetjudáð í fyrirtækjunum á hverjum degi með því að bjarga störfum, þrátt fyrir vaxtastigið, í óvissu sem að mínu áliti er að vissu leyti sköpuð af ríkisstjórninni, t.d. með fyrningarleiðinni, en líka vegna þess tafist hefur um of að setja reglur.

Þegar í janúar á þessu ári voru bankarnir byrjaðir að smíða verklagsreglur um það hvernig þeir ætluðu að taka á skuldavanda fyrirtækjanna. En nú er kominn júní og það verður að koma þessum reglum á án tafar. Og jafnsammála og ég er hæstv. utanríkisráðherra um að skynsamlegt sé að við látum á það reyna að tekist geti þverpólitísk sátt um það með hvaða hætti þessar reglur eru útfærðar held ég að það sé jafnvel mikilvægara að það komi reglur án tafar, sem allra fyrst vegna þess að ella mun fyrirtækjunum blæða út og ef ekkert verður að gert fjarar undan þeirri von og þeirri trú sem þó er enn til staðar í atvinnufyrirtækjunum.

Það er annað sem einnig er byrjað að gerast og við skulum bara horfast í augu við, það verður (Forseti hringir.) kroppað innan úr fyrirtækjunum smám saman. Eignir verða dregnar út úr þeim og (Forseti hringir.) lítið gert úr verðmætunum. Á meðan menn eru í óvissu og hafa ekki trú á framtíðinni byrja þeir einfaldlega (Forseti hringir.) að draga til sín eignir og skemma þær sem eftir eru.