137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[12:06]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Áfram heldur hv. þingmaður og formaður Sjálfstæðisflokksins að gera upp við fortíðina á þann hátt sem hann gerir nú og ber að þakka sérstaklega fyrir þá hreinskilni sem kemur þar fram.

Hv. þingmaður talaði um óraunhæfar aðgerðir, að sú tillaga sem Framsóknarflokkurinn setti fram á sínum tíma og keypti sér stuðning við í kosningunum til að halda lífi, hafi verið misráðin aðgerð. Ég ítreka það sem ég sagði áðan varðandi kaflann um peningamálastefnuna og uppgjöf hvað hana varðar, hér hefur þá komið fram mjög hreinskilnislegt svar varðandi húsnæðislánin.

Þá skil ég það þannig og það er seinni spurning mín til hv. þingmanns hvort hann eigi þá við að allt sem gert var á þessum tíma. Var skattalækkunin sem sett var fram óraunhæf og misráðin, eins og hv. þingmaður talar um? Var það líka óraunhæft og misráðið hjá ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á þessum tíma að minnka bindiskylduna? Hún hafði nefnilega mikil áhrif (Forseti hringir.) og gerði það að verkum að bankakerfið sem var á bullandi „swing“ (Forseti hringir.) fór í samkeppni við Íbúðalánasjóð til að reyna að drepa hann og bauð enn þá meira en 90%, nefnilega 100%.