137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[12:09]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Hv. þm. Bjarni Benediktsson hefur farið þokkalega ítarlega yfir tillögur okkar. En það sem mig langar til að gera er aðeins að fara yfir bakgrunninn.

Sú vinna sem við lögðum í var gerð í því ástandi sem við upplifum núna þar sem þúsundir — nálgast annan tug þúsunda — fólks er á atvinnuleysisskrá. Skuldavandi heimila og fyrirtækja eykst dag frá degi. Ríkisfjármálin eru í algjörum ólestri og bankakerfið er í lamasessi. Afleiðingin af því er sú að íslenska þjóðin hefur fyllst vonleysi og vantrú á framtíðina. Við heyrum ungt fólk tala um að flytja til útlanda. Við heyrum fólk tala um að hætta að greiða af lánunum sínum o.s.frv.

Það sem við vildum gera var að reyna að koma fram á uppbyggilegan hátt með eitthvert andsvar við þessu. Við reyndum að skilgreina hvert verkefnið væri og komumst að því að í fyrsta lagi þyrfti að bæta stöðu heimila og fyrirtækja. Það þyrfti að endurheimta tiltrú á íslenskt efnahagslíf og, það sem mikilvægt er, það ætti að skapa sameiginlegan skilning á mikilvægi aðgerða. Þess vegna gera margar tillagnanna ráð fyrir samráði stjórnmálaflokkanna eða eru gerðar í samráði við hagsmunaaðila. Það er gert til þess að tryggja skilning á mikilvægi aðgerðanna.

Jafnframt var leiðarljós okkar það að skapa þyrfti hvata til atvinnusköpunar og þar af leiðandi til hagvaxtar. Ef atvinnurekendur, fyrirtækjaeigendurnir, hafa ekki trú á framtíðinni fjárfesta þeir ekki. Þá skapa þeir ekki ný störf. Þeir framleiða ekki meira eða auka ekki framleiðslu sína. Þar af leiðandi kemst hagvöxtur ekki af stað. Við erum föst í vítahring.

Ein af forsendunum sem við studdumst við var hið endanlega markmið, að skapa á ný skilyrði til þess að Ísland verði á ný í hópi samkeppnishæfustu þjóða heims. Það er gríðarlega mikilvægt til þess að efla trú fólks, hvort sem það varðar heimilin eða atvinnurekendur, á framtíðina.

En það er eitt sem er mjög mikilvægt að komi fram, það er að hlutina þarf að gera í réttri röð. Við verðum að byrja á því að setja fram raunhæfa áætlun í ríkisfjármálum. Eins og staðan er núna stefnir framúraksturinn á fjárlögum jafnvel í 40 milljarða kr. Við höfum hingað til talað um 20 milljarða en mér skilst að það stefni jafnvel í 40 milljarða en við eigum eftir að fá staðfestingu á því hvort sú tala er rétt. En aðalatriðið er að við þurfum að sýna Íslendingum og umheiminum fram á hvernig við ætlum að loka þessu 150 milljarða gati sem m.a. er fjallað um í samstarfsáætluninni við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Samningurinn við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn er í frosti núna vegna þess að þessi áætlun liggur ekki fyrir. Peningamálastefnunefndin segir: Við getum ekki lækkað vexti út af óvissu. Við vitum ekki hvað ríkisstjórnin hyggst taka til bragðs. Það er því algjörlega lífsnauðsynlegt að þessi áætlun liggi sem fyrst fyrir.

Við þurfum líka að ljúka uppbyggingu bankakerfisins. Við þurfum að skapa umhverfi til þess að afnema gjaldeyrishöft og lækka vexti. Þessar aðgerðir verða allar að haldast í hendur og við verðum að takast á raunhæfan hátt við vanda heimila og fyrirtækja í landinu, undan því verður ekki skorast. Við þurfum að endurskoða hagstjórnina og þær reglur sem unnið er eftir á fjármálamarkaði til þess að tryggja þann trúverðugleika sem íslenskt efnahagslíf þarfnast svo mjög til langframa til þess að það verði eitthvert ljós við enda ganganna.

Ég minnist áðan á að það þyrfti að skapa skilning á því að aðgerðir verða að koma í réttri röð. Og í samhengi við þá þingsályktunartillögu gáfum við út smábækling sem mig langar til, með leyfi forseta, að lesa örlítið upp úr:

„Ein meginforsenda þess að hér verði umskipti í efnahagslífinu er sú að gera sér grein fyrir því að þær aðgerðir sem grípa þarf til verða að koma í réttri röð. Ef ekki liggur fyrir skynsamleg áætlun í ríkisfjármálum og traust bankakerfi er ekki hægt að mynda þann trúverðugleika sem þarf til að afnema gjaldeyrishöft og lækka vexti.“

Þar erum við sammála bæði Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og peningamálastefnunefnd.

„Jafnframt er ekki nema að takmörkuðum mætti hægt að takast á við vanda heimila og fyrirtækja fyrr en bankakerfið er orðið starfhæft. Þá þarf að endurskoða hagstjórnina og þær reglur sem unnið er eftir á fjármálamarkaði til að tryggja trúverðugleika íslensks efnahagslífs til langframa. Ef ekki ríkir traust er hætta á fjármagnsflótta, að fyrirtækin fjárfesti ekki og að erlendir fjárfestar sniðgangi landið í enn meira mæli en nú er.“

Meginniðurstaða okkar eftir að hafa sett þessar tillögur fram er að ef rétt er á málum haldið sé engin ástæða til að ætla annað en að okkur takist að vinna okkur fljótt og örugglega út úr kreppunni. En lykilatriðið hérna er: Við verðum að hefjast handa. Við verðum að hefjast handa nú þegar. Þess vegna höfum við sett okkur mjög ströng tímamörk í flestöllum aðgerðum sem hér eru settar fram, þ.e. að það liggi fyrir ákvörðun fyrir 15. júlí næstkomandi.

Í öðrum aðgerðum eins og endurskoðun á peningastefnunni og endurskoðun á reglum um fjármálamarkaði gefum við okkur lengri tíma vegna þess að þar þarf að fara fram mjög ítarleg vinna sem tekur hliðsjón af þeirri þróun sem er annars staðar í heiminum. Allar þjóðir eru nú að endurskoða reglur sínar. Sú tímasetning er 1. október.

Nokkrir þættir vinna með okkur: Í fyrsta lagi að aldurssamsetning þjóðarinnar er hagstæð, við höfum mikið innstreymi í lífeyrissjóði. Við höfum stóran vinnumarkað með ungu fólki og er tiltölulega ódýrt að veita elstu aldurshópunum þjónustu miðað við hvernig það er hjá öðrum þjóðum. Menntunarstigið er gott. Lífeyrissjóðirnir eru fullfjármagnaðir og við höfum reglur sem sjá til þess að þeir séu alltaf fullfjármagnaðir. Innviðir þjóðfélagsins eru sterkir. Þrátt fyrir að hafa lent í þessari óáran sem fylgdi í kjölfar hrunsins á fjármálamarkaði eru þeir innviðir áfram sterkir. Vegirnir verða ekki plægðir upp. Það verður ekki steypt upp í jarðgöng. Ljósleiðarar verða ekki rifnir upp úr jörðinni aftur. Það er þó komið til langframa.

Rekstur grunnatvinnuveganna er í þokkalegu góðu horfi fyrir utan efnahagsreikninginn. Eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson benti á er það efnahagsreikningurinn sem er vandamálið, hann þandist út við hrunið á fjármálamarkaði.

Að lokum, við eigum við gnótt náttúruauðlinda en það verður að nýta þær. Það þarf að gera eins fljótt og auðið er.