137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[12:35]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Þetta er bara að verða vandræðalega hlýtt faðmlag sem maður fær hér en samt fínt, þakka þér fyrir, hæstv. utanríkisráðherra, hvað þú tekur vel í þetta hjá okkur.

Af því að við komum inn á nýtingu orkuauðlindanna er þrennt sem stendur upp á ríkisstjórnina að taka á. Það er í fyrsta lagi að við verðum að fá rammalöggjöf um erlenda fjárfestingu og við þurfum að fá hana sem fyrst. Við þurfum að fá áætlun um orkuafhendingu vegna þess að við fáum ekki erlenda fjárfesta með því að segja þeim: Þið fáið kannski orku eftir þrjú, fjögur, fimm ár. Í þriðja lagi þarf að endurskoða allt það ferli sem er í kringum mat á umhverfisáhrifum vegna þess að það er allt of tafsamt og það fælir fjárfesta frá.

Mig langar líka til að segja: Liggur fyrir mat hjá Samfylkingunni á því hvenær (Forseti hringir.) við uppfyllum Maastricht-skilyrðin miðað við núverandi efnahagsástand og (Forseti hringir.) hvenær við getum hugsanlega tekið upp evruna?