137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[12:37]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Varðandi síðustu spurninguna man ég ekki betur en að merkur fræðimaður sem líka praktíserar sín fræði í efnahagsmálum hafi sagt opinberlega í gær að það gætu liðið fjögur ár þar til við gætum tekið upp evruna. Það er kannski fullsnemmt fyrir það sem ég taldi en ég legg það hér fyrir.

Um hitt er ég ósammála að matskerfið sé miðað við lögin og reglurnar tafsamt. Hitt er rétt hjá hv. þingmanni að stofnanirnar standa ekki við fresti.

Ég vil einnig segja hvað varðar erlenda fjárfestingu að verið er að vinna að því einmitt sem hér er o-liður í þingsályktunartillögunni, þ.e. að breyta reglum þannig að nýjar erlendar fjárfestingar falli ekki undir gjaldeyrishömlur. Sömuleiðis eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson hefur túlkað þörfina fyrir skattarammann, eins og ég hef skilið hann, hefur það fyrst og fremst verið um nýsköpunarfyrirtæki og ákveðnar skattaívilnanir þar og það er í vinnslu líka.