137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[12:43]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki lesið þær ræður hæstv. ráðherra og það er gott og örugglega upplýsandi fyrir þá sem fylgjast með umræðunni að hæstv. ráðherra ætli að senda mér ræðurnar sínar.

Ég spurði hann einfaldlega að því hvort hann teldi ekki að við gætum lært eitthvað af því að hafa tekið gagnrýnislítið upp tilskipanir Evrópusambandsins. Það er spurningin. (PHB: Meingallaðar.) Sem eru algerlega meingallaðar og skýrasta dæmið er kannski Icesave-málið.

Virðulegur forseti. Hæstv. ráðherra sleppur ekki svona frá þessu varðandi orkuna, það er bara ekki þannig. Í stjórnarsáttmálanum tala menn um að taka upp Árósasamkomulagið inn í íslenskan rétt. Eins og vinstri grænir hafa túlkað það mun það tefja allan framgang alveg gríðarlega. Það er allt sett á stopp varðandi orkuöflun þangað til rammaáætlun liggur fyrir og það er óvíst að vita hvenær það gerist. Það er algerlega ljóst að við getum ekki nýtt núna tækifærin á næstu vikum eða mánuðum, jafnvel ekki árum ef menn ætla að halda sig við stjórnarstefnuna.

Spurning mín er, virðulegi forseti: Ætla menn að breyta þessu?