137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[12:47]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki að veifa töfrasprota, ég er ekki með ódýrar lausnir á öllum vanda, jafnvel á vondu veðri, það er ekki ég sem segi: Ef við göngum í Evrópusambandið þá minnkar ofbeldi á Íslandi. Þetta er stefna Samfylkingarinnar, hún er endalaust að lofa og lofa. Málið er það að ég vil ekki taka upp evru, ég vil ekki ganga í Evrópusambandið. En hæstv. ráðherra er að lofa því eins og öll Samfylkingin að ef við göngum í Evrópusambandið þá fáum við evru eins og skot og allur vandi er leystur, bara nánast allur vandi þjóðarinnar.

Mér finnst ábyrgðarlaust að koma með þetta aftur og aftur. Og hæstv. ráðherra segir að fjármálaráðuneytið, þ.e. hæstv. fjármálaráðherra, að það sé ekkert að marka sem hann gefur út, að það taki 30 ár að ná í evruna. Ég trúi því reyndar að það tæki okkur ekki nema tíu ár að uppfylla Maastricht-skilyrðin og við eigum svo sem að stefna að því, en ég vil ekki ganga í Evrópusambandið. Það er röng ályktun hjá hæstv. ráðherra. Hann sagði sjálfur að ef við gengjum í Evrópusambandið fengjum við evru.