137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[12:48]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég sagði í fyrri ræðu minni þegar ég taldi upp þau fimm skref sem ég taldi að við þyrftum að stíga til að geta sýnt fram á trúverðuga stefnu fyrir Ísland inn í framtíðina að það væri t.d. að ganga í Evrópusambandið til þess m.a. að geta tekið upp evruna. Ég sagði ekki að við gætum tekið hana upp á fjórum árum. Hins vegar var í fjölmiðlum í gær fræðimaður sem taldi að það yrði hægt. Ég sagði í ræðu minni áðan að ég teldi að það væri fullbjartsýnt en hugsanlegt er það.

Hitt er alveg ljóst og dæmi eru um að þegar þjóðir hafa gengið til samstarfs við Evrópusambandið geta þær í aðdragandanum tekið upp samstarf sem mundi styrkja mjög stöðugleika okkar gjaldmiðils og koma meiri kyrrð og ró á efnahagslíf okkar. (Gripið fram í: Hvaða þjóðir eru það?)

Eins og komið hefur fram hjá hv. þm. Trygga Þór Herbertssyni skiptir eitt verulega miklu máli og það er að draga úr þeirri óvissu sem lykur um allt efnahagskerfið. Það skiptir máli og það er ég að reyna að gera. Ég hef ekki dregið dul á að afstaða mín (Forseti hringir.) til Evrópusambandsins markast af þeim vilja.