137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[13:04]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég var kannski einkum og sér í lagi að benda á að menn verða náttúrlega að eiga það sem þeir eiga. Í þeim þingmálum sem ég gat um frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði á sínum tíma voru að sjálfsögðu lagðar til allítarlegar tillögur sem ég skora á hv. þingmann að kynna sér. Það skiptir kannski ekki öllu máli núna. Á þeim tíma vorum við reyndar í allt annarri stöðu en við erum við þær aðstæður sem nú eru uppi en þær tóku engu að síður mið af þeim veruleika og þeim aðstæðum sem þá voru uppi og voru allítarlegar. Ég bendi bara á þetta til marks um að slíkar tillögur hafa verið fluttar en það hefur því miður verið allt of algengt í störfum Alþingis að tillögur frá stjórnarandstöðuþingmönnum og almennum þingmönnum yfirleitt, en ekki síst úr stjórnarandstöðunni, hafa jafnvel ekki fengið umfjöllun í þingsal eða þingnefndum.

Sú tillaga sem hér liggur fyrir frá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins er þess eðlis að mínu viti að þar er um margt mjög góðra tillagna að ræða. Ég held að um margar þeirra séu áreiðanlega skiptar skoðanir, verulega skiptar skoðanir en um aðrar getur áreiðanlega tekist góð samstaða. Ég fagna því að sjálfsögðu að Sjálfstæðisflokkurinn, sem ábyrgur stjórnmálaflokkur, skuli leggja fram sínar hugmyndir í það púkk sem við þurfum öll á að halda að verði sem breiðast og innihaldi sem flestar hugmyndir um hvernig við getum unnið okkur út úr þeirri stöðu sem við erum í. Að mínu viti er það skylda stjórnvalda að kalla alla að því borði, líka stjórnarandstöðuflokkana. Það hefur reyndar verið gert og fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna hafa verið í viðræðum við ríkisstjórnina, aðila vinnumarkaðarins og fleiri til að leita leiða úr þeirri alvarlegu stöðu sem íslensk þjóð býr við. Það hlýtur að vera frumskylda okkar allra sem hér störfum að vinna þannig að málum, burt séð frá hvar í flokk við skipum okkur.