137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[13:08]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tók eftir því í ræðu hv. þingmanns að hann talaði um að hér þyrfti reynslu og verkvit og ég tók það þannig að hann hefði verið að tala um að það væri eingöngu hjá Sjálfstæðisflokknum, hann hagaði málflutningi sínum í þá veru. Á bls. 8 í þeirri þingsályktunartillögu sem hér er til umræðu er fjallað um peningamálastefnuna. Meðal annars segir þar, með leyfi forseta:

„Seðlabankinn brá því á það ráð að halda niðri innflutningsverðlagi og þar með verðbólgu með því að halda krónunni sterkri og var það meðal annars gert með því að laða að erlenda fjárfesta – hvetja til svokallaðra vaxtamunarviðskipta. Í meginatriðum fólust þessi vaxtamunarviðskipti í því að erlendir bankar hófu útgáfu skuldabréfa í íslenskum krónum sem síðan voru seld til erlendra fjárfesta.“

Virðulegi forseti. Mín spurning til hv. þingmanns er eingöngu þessi: Var það reynsla og verkvit hjá þeirri ríkisstjórn sem sat og gerði þetta, þ.e. Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og þeim ráðherrum sem stýrðu þar efnahagsmálum — og líka að við förum ekki ofan í Seðlabankann og tölum um seðlabankastjóra sem hafa setið í krafti Sjálfstæðisflokksins — sem komu fram í þessari peningastefnu?