137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[13:13]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. samgönguráðherra lætur ekki deigan síga og ber höfðinu við steininn. Við höfum engan tíma í dag til að ræða um fortíðina, hvort sem það eru raunveruleg vandamál eða umdeild atriði, við höfum engan tíma til þess. Við höfum tíma til þess og skyldur til þess að fjalla um verkefnin sem liggja fyrir og eiga að skila árangri fyrir íslenska þjóð. (Samgrh.: Það er ríkisstjórnin að gera.) Ríkisstjórnin þarf að taka á sig að gera og þora að vinna verkin sem þarf að vinna en hún gerir það ekki. Það er það sem skelfir þjóðfélagið í dag að menn sitja auðum höndum og ganga um með hendur í vösum. (Samgrh.: Við erum skilanefnd.) Hæstv. ráðherra er fljótur að taka hendurnar úr vösum núna. Ríkisstjórnin þarf að gera það og láta hendur standa fram úr ermum, taka á vandanum, klára málin. Það er vilji þorra þingmanna hér að vinna að því saman og taka á því saman og þá er mikilvægt að nýta þann vilja, nýta þá möguleika sem eru fyrir hendi og hafa ekki verið fyrir hendi fyrr á Alþingi um langt árabil, að menn vinni saman að hlutunum.