137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[13:37]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Tillögu þingflokks Sjálfstæðisflokksins um nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála ber að fagna eins og öðru sem lagt er fram til þess að reyna að vinna á þeim mikla efnahagsvanda sem þjóðin er í.

Að langmestu leyti get ég tekið undir þessa tillögu. Helst hefði ég viljað sjá meira um framkvæmdina á tillögunum en reyndar er gert ráð fyrir því að myndaðir verði hópar og farið í þá vinnu sem þarf til þess að framkvæma þetta. En mörg mál eru líka þess eðlis og lögð er áhersla á að þau mega ekki bíða. Þar tek ég undir með þeim sem talað hafa á undan mér um mikilvægi þess að þessi mál séu ekki látin bíða. Nú hafa nokkrir stjórnarliðar tekið jákvætt í þessar tillögur og rætt um að þær skuli fá afgreiðslu fljótt og vel.

Ég veit hins vegar ekki í ljósi reynslunnar hvort menn hafi ástæðu til að vera bjartsýnir hvað það varðar. Hæstv. utanríkisráðherra talaði ágætlega á sínum tíma um sambærilegar tillögur Framsóknarflokksins sem komu nú fyrst fram í febrúar á þessu ári og svo inn í þingið. Hann talaði mjög vel um flestar þeirra tillagna en hafði reyndar smáfyrirvara hvað eina tillöguna varðar. En svo kemur hann núna og talar álíka vel um tillögur Sjálfstæðisflokksins.

Hvað hefur hins vegar orðið um tillögu Framsóknarflokksins sem hæstv. utanríkisráðherra og margir aðrir töluðu um að þyrfti að ræða og vinna með? Hún fór til umræðu í efnahags- og skattanefnd 17. mars síðastliðinn og hefur ekki spurst til hennar síðan. Ég ætla að vona að það fari ekki eins fyrir þessari tillögu og jafnvel að einhver staðar geti hæstv. utanríkisráðherra og aðrir stjórnarliðar, sem nú tala um mikilvægi þess að skoða vel allar góðar hugmyndir, fundið hjá sér þessar tillögur Framsóknar og skoðað þær þá líka.

Eins og ég nefndi líst mér bara vel á megnið af þessu. Hér er fjallað um mikilvægi þess að gætt sé að samkeppnisstöðu fyrirtækja í endurskipulagningu bankanna og atvinnulífsins. Það er nokkuð sem er mjög mikilvægt að ræða einmitt þessa dagana vegna þess að í bönkunum er nú verið að taka ákvarðanir um framtíð fjölmargra og í rauninni flestra íslenskra fyrirtækja. Þá er afskaplega mikilvægt að það sé gert með skipulögðum hætti og menn geti verið nokkuð vissir um að eitt sé látið yfir alla ganga, að gætt sé sanngirni. Þess vegna er ég ánægður að sjá að hér er lögð áhersla á það.

Hér er fjallað um fjármál hins opinbera og mikilvægi þess að upplýsingar um stöðu ríkisfjármála og framkvæmd fjárlaga verði kynntar Alþingi. Það er svo sannarlega mikilvægt en hins vegar er ótrúlegt að það þurfi að koma fram í þingsályktunartillögu en sú er raunin. Ég viðurkenni að það er þörf fyrir að leggja þetta fram í þingsályktunartillögu vegna þess að það hefur ekki verið gert sem er alveg með stökustu ólíkindum miðað við þær aðstæður sem við erum í núna, að það þurfi að leggja fram sérstaklega í þingsályktunartillögu beiðni um að Alþingi fái upplýsingar um stöðu ríkisfjármála.

Það kemur kannski ekki á óvart að ég hef dálítið aðrar áherslur hvað varðar leiðréttingu skulda eða niðurfærslu höfuðstóls en fagna því þó að í tillögu sjálfstæðismanna er opnað á lækkun höfuðstóls. En ef það er gert með sértækum aðgerðum er ekki hægt að tala um leiðréttingu heldur er þá verið að meta hvert tilvik fyrir sig. Það vantar svolítið skýringar á því hvernig slíkt geti verið framkvæmanlegt, til að mynda varðandi lán til heimilanna. En gott og vel. Það er þó fyrir öllu að menn hefjist handa við að velta þessu fyrir sér og vinna þá vinnu.

Mér líst mjög vel á tillöguna um kerfisbreytingu á skattlagningu lífeyrisgreiðslna. Við í Framsókn vorum reyndar búin að láta reikna fyrir okkur það dæmi og ég tel rétt það sem ályktað er í þessari tillögu að það geti skilað töluverðum tekjum. Að vísu dregur það úr skatttekjum ríkisins í framtíðinni en það er vel réttlætanlegt við núverandi aðstæður að menn taki dálítið lán í framtíðinni því að við verðum að vona að ástandið batni þegar fram líða stundir. En það batnar ekki nema við höfum einhverja innspýtingu við þær aðstæður sem nú eru þannig að þetta er að mínu mati vel réttlætanlegt.

Sá flutningur milli gömlu og nýju bankanna sem hér er getið um ætti náttúrlega að vera löngu búinn. Það er eitt af því sem er svo undarlegt í öllu í starfi þessarar ríkisstjórnar að það skuli enn dragast von úr viti. Vissulega er þetta flókið mál og vissulega er mikil áhætta sem fylgir þessu. En þá verða menn líka að þora að dreifa þeirri áhættu, fara varlega í flutning eigna á gömlu bönkunum yfir í þá nýju og taka tillit til þess að allt hagkerfið er undir. Þar af leiðandi geta menn leyft sér við flutning t.d. lánasafna úr gömlu bönkunum í þá nýju að huga að því að þau lán sem virðast þar vera hugsanlega jafngóð við eðlilegar aðstæður verði ekki endilega góð ef fram heldur sem horfir. Það þarf að hafa í huga, jafnvel í fyrirtækjum sem staðið hafa í skilum og menn sjá fram á að ættu að geta staðið í skilum áfram, að aðstæður geta breyst og stefnir reyndar í að þær breytist mjög hratt til hins verra. Það bitnar á öllum fyrirtækjum ef hér verður það sem er kallað kerfishrun í efnahagslífinu, nokkuð sem því miður stefnir í og við færumst nær dag frá degi ef ekkert er gert til þess að koma í veg fyrir það.

Tvö atriði í viðbót vil ég nefna í ályktuninni sjálfri. Það eru breytingar á reglum um gjaldeyrishöft en nýjar, erlendar fjárfestingar falla ekki undir höftin. Ég tel að þetta hljóti að vera mjög erfitt í framkvæmd og mundi þá frekar vilja sjá áherslu á að höftunum yrði aflétt sem fyrst en hugsanlega þarf það að gerast í þrepum.

Ég er vissulega sammála því að þróuð verði úrræði til að minnka umfang verðtryggingar og auka framboð óverðtryggðra lána en hefði viljað sjá aðeins meiri útfærslu. Hún verður þá væntanlega unnin í framhaldinu.

Ég ætla að segja hér nokkur orð í viðbót um stöðu heimilanna og fá að lesa nokkrar línur upp úr greinargerð með frumvarpinu, með leyfi forseta. Þar segir:

„Í ljósi þess hve vandinn er almennur er lagt til að öllum sem þess óska verði gert kleift að minnka greiðslubyrði húsnæðislána sinna um allt að 50% næstu þrjú árin. Lækkuninni verði bætt við eftirstöðvar lánsins. Hugmyndin er að eftir þrjú ár verði efnahagslegar aðstæður á Íslandi umtalsvert betri en nú eru og fólk geti þá frekar staðið við skuldbindingar sínar.“

Þessi tillaga gerir sem sagt ekki ráð fyrir að þessi ríkisstjórn sitji áfram því að hér er treyst á að ástandið verði orðið miklu betra eftir þrjú ár. Því miður stefnir ekki í að sú verði raunin. En ég vona að ég sé ekki að eyðileggja daginn enn þá meira fyrir hæstv. utanríkisráðherra með því að benda honum á staðreyndir um stöðu efnahagsmála.

Nýjustu tölur í Icesave-hneykslinu eru þær að ábyrgð ríkisins er komin í 732.720 milljarða, tæplega 733 milljarða og fyrsta árs vextir komnir yfir 40 milljarða. Við fengum í morgun nákvæmari upplýsingar um upphæðina í erlendri mynt og hún reyndist vera töluvert hærri en ríkisstjórnin hafði kynnt. Því til viðbótar hefur gengi íslensku krónunnar hríðfallið frá því að tilkynnt var um þetta Icesave-samkomulag. Skyldi engan undra þegar verið er að skuldbinda ríkið svo gífurlega í erlendri mynt.

Það mun þess vegna verða til þess nánast óhjákvæmilega að festa í sessi lágt gengi íslensku krónunnar í alla vega 20 ár á meðan þessi skuldbinding hangir yfir. Síðan á hún að koma til greiðslu en ekki er með nokkru móti búið að sýna fram á hvernig á að vera hægt að standa undir því og sífellt fleiri færa nú rök fyrir því að það sé ekki hægt. Ég bendi mönnum á að lesa leiðara Viðskiptablaðsins í dag þar sem útskýrt er að þó að ríkisstjórnin telji sig geta blekkt almenning og fjölmiðla með spuna í kringum þetta mál láti markaðirnir ekki blekkja sig og geri sér grein fyrir því að Íslendingar standa ekki undir þessum skuldbindingum í erlendri mynt. Það sé ekkert sem bendi til að það verði hægt.

Aðrir fjölmiðlar fylgja líka málinu eftir. Í dag birtist á eFréttum.is að samkvæmt áreiðanlegum heimildum séu 50% af lánasafni Landsbankans svokölluð ABL-lán, Asset-based loans, sem voru veitt yfirveðsettum fyrirtækjum.

Þó að tillögur Sjálfstæðisflokksins séu á margan hátt ágætar er ég dálítið hræddur um að þær og aðrar tillögur dugi ekki til ef þingið tekur þá afdrifaríku ákvörðun í næstu viku að taka á sig þessar Icesave-skuldbindingar því að undir þeim getum við ekki staðið.