137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[14:02]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á því að í máli hæstv. ráðherra kom fram að hann var ekki einbeittari en það að hann sagðist halda að það yrði evran. Það var ekki meiri fullvissa en það og er ég með nokkra kerskni í þessum orðum mínum og ég skal fyllilega viðurkenna það.

Ég ætla ekki að innheimta af ráðherra uppfyllingu loforða gagnvart Framsóknarflokknum. Ég nefndi það í ljósi þeirra orða sem komu fram hjá formanni Framsóknarflokksins í ræðu áðan og þótti við hæfi að gera það í ljósi þeirra orða sem hæstv. ráðherra hafði um Sjálfstæðisflokkinn.

Það er raunar fullyrðing sem mér finnst mjög hæpin að heyra hér og hlýða á hæstv. samgönguráðherra setja fram í ljósi samstarfs ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar að þetta væri fyrsta tillagan sem kæmi fram hjá Sjálfstæðisflokknum eftir að hrunið hófst. Það er mjög einbeittur brotavilji svo ekki sé meira sagt í ljósi þess ágæta samstarfs sem þessir tveir flokkar áttu. Ég minnist þess að fyrrverandi ríkisstjórn gaf út yfirlit um þær aðgerðir sem gripið hafði verið til frá hruni og þær voru yfir hundrað. Þannig að einhverju aðild hafa sjálfstæðismenn átt að tillögum til úrbóta í þeim efnum.

Varðandi þá hugmynd sem hér hefur verið rædd mikið í dag, breytingar á greiðslum inn í lífeyrissjóði og að skattleggja iðgjaldið strax, þ.e. áður en til innborgunar kemur, þá hefði ég viljað heyra aðeins frá hæstv. ráðherra, í ljósi þeirra orða sem hann viðhafði í ræðu sinni áðan, hverjir væru helstu fyrirvarar hans á þeirri leið. Í þessari umræðu er mikið horft til lífeyrissjóðanna og vil ég leyfa mér að benda á að eigendur lífeyrissjóðanna eru nákvæmlega sömu eigendur og eiga ríkissjóð en í umræðunni er oft horft til þess að atvinnurekendur og verkalýðsfélög séu eigendur eða umráðamenn þessara sjóða. En eigendur (Forseti hringir.) lífeyrissjóðanna og ríkissjóðsins er einn og sami hópurinn og það er íslenska þjóðin.