137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[14:09]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson, sem ég ímynda mér að sé einn af höfundum þessarar tillögu fyrir hönd þingflokks Sjálfstæðisflokksins, telur að það verðmætasta í þessari tillögu sé að þetta sé heildstætt plan.

Virðulegi forseti. Efast einhver um það eitt augnablik að það sem hæstv. ríkisstjórn er að gera og það sem menn hafa verið að gera undanfarið, að menn séu að reyna að vinna heildstætt plan? (TÞH: Já, það er heila málið.) Nei, það er aldeilis ekki, virðulegi forseti. En það getur vel verið, virðulegi forseti, að menn hafi ekkert voðalega mikið verið að vinna heildstætt plan fyrst eftir hrunið og því fór sem fór.

Sú ríkisstjórn sem mynduð var 1. febrúar og tók við af ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks sem sprakk hefur verið að vinna heildstætt plan og setja það fram. Hvað annað er verið að gera með viðræðum við aðila vinnumarkaðarins? Hvað annað er verið að gera með því að mynda víðtækt samráð við aðila vinnumarkaðarins og búa til nokkurs konar þjóðarsátt eins og helst þyrfti að gera? Hvað annað er verið að gera með því að bjóða stjórnarandstöðunni að koma að því borði? Hvað annað er verið að gera með því m.a. að við stjórnarliðar tökum hluta af þessum tillögum og erum að ræða hann á hinu háa Alþingi núna, virðulegi forseti, nokkrum dögum eftir að tillagan kemur fram? Þetta er nýtt, þetta eru ný vinnubrögð.

Það sem verið er að gera og það sem lagt er til í þessari tillögu og talið upp í tillögunni sjálfri, þ.e. aðgerðir fyrir heimilin, fyrirtækin, fjármál hins opinbera, fjármálamarkaði og peningamálastjórn, allt þetta er verið að gera þó að misjafnlega vel gangi.

Eins og hér hefur komið fram þegar rætt er um peningamálastjórnina — ég held að það hafi komið fram hjá hv. þm. Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins — hafa sennilega þrjár ríkisstjórnir haft það á stefnuskrá sinni að breyta peningamálastjórninni en það hefur ekki tekist, því miður.