137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[14:27]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu er Samfylkingin óhrædd við að axla ábyrgð og í valdastöðum eðlilega þar sem við vorum í ríkisstjórn var samfylkingarfólk. Það liggur í hlutarins eðli og ég læt svar mitt frá fyrra andsvari duga hvað það varðar. Ég ítreka að við segjum ekki Evrópusambandið sé töfralausn. Við segjum að það sé — (Gripið fram í.) já, það er alltaf gott að hafa leiðarljós í lífinu og það er svo einkennilegt að það virðist vera að Samfylkingin sé eini flokkurinn á þessu þingi sem sé með raunhæfar áætlanir til framtíðar. (Gripið fram í.) Það er ekki villuljós.

En virðulegi forseti. Ég geri þá að lokaorðum mínum orð sem við ættum kannski að hafa oftar yfir. Ég legg til að lögð verði sem fyrst fram tillaga um það að Ísland fari í aðildarviðræður við Evrópusambandið og við getum í kjölfar viðræðna og góðs samnings tekið hér upp evru. Og ég held að það séu ekki 10–15 ár, eins og hv. þm. Pétur Blöndal heldur fram — það er kannski óskhyggja hans þar sem hann er ekki áhugamaður um upptöku evru. En það verða auðvitað nokkur ár í það.

En fram að þeim tíma vinnum við saman hér í þinginu að því að greiða úr efnahagsmálum og reisa upp íslenskt efnahagslíf. Það verður mun auðveldara þegar heimurinn öðlast trú á okkur þegar við verðum búin að leggja fram trúverðugt plan í ríkisfjármálum. Það mun hafa áhrif á peningastefnuna. Það mun auðvelda okkur aðgengi að erlendu fjármagni samhliða því sem við lýsum yfir ósk um aðildarviðræður að Evrópusambandinu.