137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[15:11]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Þær tillögur sem hér hafa verið lagðar fram í formi þingsályktunartillögu eru eðli máls samkvæmt ekki þannig úr garði gerðar að þær leysi allan þann vanda sem íslenskt efnahagslíf stendur nú frammi fyrir. Sá vandi sem við höfum fyrir framan okkur er bæði það margbrotinn og flókinn að það mun taka langan tíma að leysa úr öllum þeim úrlausnarefnum sem koma til okkar. En ég tel að þær tillögur sem hafa verið settar fram séu mjög gagnlegar og séu ákveðinn leiðarvísir fyrir ríkisstjórnina, fyrir framkvæmdarvaldið, til að vinna eftir á næstu vikum og mánuðum. Verkefnin eru mjög brýn og því miður hefur dregist úr hömlu að leggja fram t.d. áætlanir og úrbætur í fjármálum ríkisins hvað varðar síðan endurreisn bankakerfisins eins og margir hv. þingmenn hafa komið inn á í ræðum sínum í dag.

Ásamt því að við sjálfstæðismenn leggjum fram þessa tillögu til þingsályktunar höfum við einnig tekið saman efni í bækling sem við höfum dreift á fundum undir fyrirsögninni „Þetta viljum við gera — Tillögur Sjálfstæðisflokksins í efnahagsmálum“. Þar er tillaga sem ekki kemur fram í þingsályktunartillögunni, einkum vegna þess að hún þykir kannski of tæknileg til að vera talin upp hérna en er að mínu mati mjög mikilvæg. Hún lýtur að þeim möguleikum sem við höfum til að leysa þann vanda sem er uppi vegna jöklabréfanna. Það er óþarfi að fara í löngu máli yfir það hvernig sá vandi er til kominn. Ítrekað hefur verið farið yfir það hvernig stóð á því að peningamálastefna Seðlabankans olli því að allt of mikið fjármagn streymdi inn í landið, allt of mikill erlendur gjaldeyrir sem styrkti íslensku krónuna og setti hagkerfið að stórum hluta á hliðina. En gott og vel, við stöndum frammi fyrir þessum vanda og hann gerir það að verkum, þessi vandi sérstaklega, að við eigum erfitt með það að losa um hömlur á krónunni, losa um gjaldeyrishömlurnar af því að það mikið fjármagn bíður eftir því að komast út úr landinu.

Ein þeirra hugmynda sem við sjálfstæðismenn höfum sett fram er að ríkið gefi út skuldabréf í erlendri mynt, í evrum, til 10–15 ára, með sömu vöxtum og eru t.d. í boði hjá Þjóðverjum plús álag, 50–100 punkta álag, þannig úr garði gert að það væri greiðslufrjálst fyrstu þrjú eða fjögur árin og síðan lægi fyrir hvernig greiðslunum yrði háttað næstu árin þar á eftir. Slíkt skuldabréf væri boðið eigendum þessara bréfa til kaups og það sem mundi vinnast með því að þeir tækju slíku tilboði hvað varðar okkur Íslendinga er að þar með væri komin kerfisbinding á það hvenær þessir fjármunir fara út úr landinu. Það er búið að dreifa því á nokkuð langan tíma. Fyrir þá sem eiga krónubréfin sem eru auðvitað í þessum skuldabréfaviðskiptum getur verið gríðarlega hagkvæmt að eyða þeirri óvissu sem er um þróun íslensku krónunnar og um gjaldeyrishöftin, hvenær þeir geta náð fjármunum sínum til baka. Með því að þeir tækju slíku tilboði á ákveðnu settu gengi væru þeir þá búnir að gera sér grein fyrir því tapi sem hefur orðið vegna gengisbreytinganna, þeir hafa þá auðvitað notið hárra vaxta en væru komnir í þá stöðu að geta séð fyrir hvenær þeir gætu endurheimt sitt fé. Þessi aðgerð tel ég að geti leitt til þess að við getum fyrr afnumið gjaldeyrishöftin af krónunni sem við búum núna við. Það er gríðarlega mikilvægt að það takist.

Frú forseti. Ég vek athygli á þessari hugmynd þótt hún sé ekki beint í þeirri þingsályktunartillögu sem er til umræðu og bendi jafnframt á að það eru fleiri hugmyndir til í efnahagsmálum sem við sjálfstæðismenn leggjum fram að þessu sinni sem ekki hafa ratað inn í þingsályktunartillöguna en eru í þeim bæklingi sem við höfum gefið út með þessum efnahagstillögum.

Hvað varðar síðan aðra þætti vil ég sérstaklega gera að umtalsefni þann þáttinn sem snýr að skattamálum. Ég hef af því miklar áhyggjur að skattstofnarnir muni dragast mjög hratt og harkalega saman fyrir næsta ár. Það veldur því eðli málsins samkvæmt að tekjur ríkissjóðs dragast saman og þar með verður vandinn í ríkisfjármálunum enn erfiðari. Því miður þykir mér ríkisstjórnin um of horfa á þá möguleika sem hún telur felast í því að hækka skatta til að mæta þeim halla sem er fyrirsjáanlegur á ríkissjóði. Það að reyna að hækka skatta á skattstofnum sem eru að skreppa svona saman er svipað og þegar fyrirtæki verður fyrir því að sala á vörum þess minnkar, markaðshlutdeildin minnkar og þar með tekjurnar, og þá sé rétta svarið að hækka verðið á vörunni til að reikna sér síðan inn auknar tekjur. Hættan er sú að menn fari um of í skattahækkanir og dragi þar með enn meira úr eftirspurninni í hagkerfinu. Skattahækkanir á laun almennings munu óneitanlega og óumflýjanlega gera það. Skattahækkanir á fyrirtækin draga úr driftinni í þjóðfélaginu, draga úr starfseminni. Allt mun þetta valda samdrætti í allri efnahagsstarfseminni og er þess vegna mjög óheppilegt ráð til að leysa þann mikla vanda sem ríkissjóður stendur frammi fyrir.

Það er líka ljóst að það verður mjög erfitt að skera svo mikið niður ríkisútgjöldin að menn nái að mæta þeirri kröfu sem uppi er um jafnvægi í ríkisfjármálum. Ein leið sem við sjálfstæðismenn höfum bent á, sem við höfum svo sem gert okkur grein fyrir að yrði umdeild, er sú að breyta skattlagningu á lífeyrissjóðakerfinu þannig að lífeyrisgreiðslur verði skattlagðar þegar greiðslan fer inn í sjóðinn en ekki eins og nú er, þegar greiðslan kemur út úr sjóðnum. Þetta leiðir augljóslega til þess að það dregur úr þjóðhagslegum sparnaði en — og það er mikilvægt að hafa það í huga — það vandamál sem ríkissjóður stendur frammi fyrir er það mikið og það alvarlegt að þegar saman eru virt áhrif þess að draga úr þjóðhagslegum sparnaði með þessum hætti og leysa þann vanda sem ríkissjóður stendur frammi fyrir tel ég það réttlætanlega ráðstöfun að breyta skattlagningu lífeyrissjóðakerfisins svona.

Það eru takmörk fyrir því hvað er skynsamlegt út frá hagvaxtarsjónarmiðum að draga úr útgjöldum til menntamála. Menntakerfið er grundvöllur að hagvexti framtíðarinnar og þessa hluti verða menn alla að virða saman, annars vegar fjárfestingargetu lífeyrissjóðanna og mikilvægi hennar, hins vegar mikilvægi þess að halda uppi öflugu menntakerfi og að lenda ekki í því að ríkið taki of mikil lán með tilheyrandi vaxtakostnaði sem síðan dregur úr öllu hagkerfinu á móti. Ef ríkið ætlar að fjármagna mikinn hallarekstur með lántöku verður auðvitað þeim mun minna eftir af fjármagni fyrir almenna markaðinn og fyrir fyrirtækin í landinu. Allt þetta þarf að vega saman og það án fordóma, án fyrir fram gefinnar niðurstöðu. Því miður hefur mér fundist nokkuð bera á því í umræðunni um þessa tillögu að menn hafa svolítið hlaupið upp til handa og fóta og sett sig í gamalkunnar skotgrafarstellingar. Ég held að við Íslendingar séum í svo alvarlegum og erfiðum málum að við höfum ekki efni á slíku.

Margar aðrar tillögur höfum við lagt fram og sem hafa hér verið ræddar. Þó vil ég sérstaklega vekja athygli á þeim hugmyndum sem snúa að lækkun á greiðslubyrði húsnæðislána. Það eru mjög mikilvægar hugmyndir sem við leggjum þar fram vegna þess að þau úrræði sem við leggjum til eru manneskjuleg, einföld og fljótleg í framkvæmd og það ríður mjög á að þau úrræði sem við bjóðum heimilum í landinu séu akkúrat þannig úr garði gerð. Og það er möguleiki, án þess að það sé allt of mikill kostnaður fyrir ríkissjóð, að lækka greiðslur á verðtryggðu húsnæðislánunum niður um u.þ.b. helming í þrjú ár og hjálpa þannig heimilunum við að komst í gegnum erfiðasta hjallann, koma þannig í veg fyrir að eftirspurn í hagkerfinu dragist allt of mikið saman með tilheyrandi auknu atvinnuleysi og vandræðum fyrir allt samfélagið. Á öllum þessum þáttum höfum við snert og ég óska þess og vona að við á Alþingi, í nefndastarfi og áframhaldandi umræðum, getum nýtt okkur þessar tillögur. Þær eru lagðar fram til að hjálpa til (Forseti hringir.) með ríkisstjórninni til að koma fram með hugmyndir til að sýna það í verki að við sjálfstæðismenn (Forseti hringir.) viljum gera allt sem í okkar valdi stendur til að leggja hönd á plóg.