137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[16:11]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir hlýleg ummæli í garð okkar sjálfstæðismanna. Það er gott að tónninn er að breytast, að þessari þöggun sem við höfum verið beitt sé loks aflétt eins og við höfum heyrt hér í þingsölum í dag.

Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður talaði um hér áðan, það eru til úrræði, það hafa verið sett fram úrræði og þau úrræði lúta allt of ströngum reglum. Þetta eru svipugöng sem eru niðurlægjandi fyrir þá sem þurfa að ganga þau enda sjáum við að hingað til hafa ekki nema 50 manns nýtt sér greiðsluaðlögunarúrræðin, sem nú eru eitt aðalúrræðið til þess að fá niðurfelldar skuldir, en við vitum að vandamálið er mun stærra en það.

Það er eitt sem hefur alls ekki komið fram í ræðum stjórnarliða, þ.e. að tímamörk eru sett í þessum tillögupakka okkar sjálfstæðismanna. Þau tímamörk helgast af þeim bráðavanda og af því hve brýnt er að ráðast í aðgerðir, þau tímamörk eru 15. júlí. Við höfum nú heyrt um góðan vilja Samfylkingar og Vinstri grænna og það er tiltölulega skammt í að við getum borið hlýju orðin saman við (Forseti hringir.) efndirnar eða u.þ.b. einn mánuður.