137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[16:16]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þakkir sem hér hafa verið fram bornar til hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar fyrir ræðu hans, hún var málefnaleg og ágæt. Ég vil einungis koma hér upp og gera athugasemd við einn þátt hennar og ekki stóran, hann snýr að því hversu fljótt þingið tók þetta mál á dagskrá. Ég vil nota tækifærið og þakka kærlega fyrir það hversu fljótt málið kom inn. Það skiptir máli þegar svona mál er lagt fram að fá umræðu um það sem fyrst, rétt eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson benti á, sökum mikilvægis málsins og þeirra aðstæðna sem uppi eru.

Það hjálpaði okkur ef til vill hvað það varðar og gerði kannski ákvörðun virðulegs forseta þingsins auðveldari að hleypa þessu máli að svona snemma að einungis fjögur mál bíða 1. umr. í þinginu, það eru breytingar á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðsins, frumvarp um fjármálafyrirtæki, gjaldþrotaskipti og bann við nektarsýningum. Það eru þau mál sem bíða 1. umr. hér í þinginu og síðan þegar litið er til þeirra þingsályktunartillagna sem bíða er það í raun bara sú þingsályktunartillaga sem rædd var í dag. Það hjálpar til hversu fá mál eru komin inn en það breytir því ekki hversu ánægð við erum með að hafa fengið þetta mál rætt jafnfljótt og raun ber vitni. Það hvetur þingmenn til þess að leggja í svona vinnu þegar þeir sjá að hægt er að bregðast skjótt við og hleypa málunum að en það er rétt að hafa hitt í huga.