137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[16:17]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef reyndar ekki yfirlit yfir hvaða mál það eru nákvæmlega sem bíða þess að komast á dagskrá þingfunda en ég hygg að hér séu, til viðbótar við það sem hv. þingmaður nefndi, m.a. ýmis mál sem komið hafa úr nefndum og hefðu að sjálfsögðu getað fengið umfjöllun.

Allt eru þetta smámunir í samhengi við stóra málið sem er efni þessarar tillögu og sá vandi sem við erum að glíma í íslensku samfélagi í dag. Ég held að við ættum ekki að týna okkur í því, við hv. þingmaður, að eyða tímanum í að tala um hvað er á dagskrá, hvenær það kemst þangað og hvað kemst ekki á dagskrá, en andsvar hv. þingmanns við ræðu minni laut fyrst og fremst að því.

Varðandi samstarf stjórnar og stjórnarandstöðu og þær tímasetningar sem ég hef nefnt hefur ríkisstjórnin unnið eftir því að svokallaður bandormur, lagafrumvarp um ráðstafanir í ríkisfjármálum geti komið hér strax eftir helgina eða fljótlega eftir helgi sem einkum og sér í lagi mundu lúta að árinu 2009. Við erum öll sammála um að það þarf að gera ráðstafanir vegna ársins 2009 og mæta þeim halla sem vitað er að verður meiri en upphaflega var gert ráð fyrir, það eru áform ríkisstjórnarinnar. Sömuleiðis mun í framhaldinu vera gerð skýrsla eða áætlun um aðgerðir til lengri tíma sem m.a. mundu innihalda áform fyrir árið 2010. Þar hefur, eftir því sem ég best veit, verið talað um sirka 20. júní. Ég mun kanna sérstaklega, vegna orða hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar áðan, hvort þau áform hafi tekið einhverjum breytingum á síðasta sólarhring eða síðustu sólarhringum umfram það sem ég hef vitneskju um.

Ég tel að það sé mjög brýnt og að þær hugmyndir sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur (Forseti hringir.) reitt fram eigi að fá umfjöllun í samhengi við þau mál.