137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[16:20]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ástæða þess að ég nefndi þetta í andsvari mínu var öðrum þræði sú að við sjálfstæðismenn höfum áhyggjur af því hversu verklítil ríkisstjórnin hefur verið. Það ber mjög á boðuðum aðgerðum, það er langur listi yfir þau mál sem ætlunin er að leggja fram. Við hefðum viljað sjá þessi mál koma fyrr, við hefðum viljað sjá hraðar unnið. Það sem ég las upp er útprentun af vef Alþingis, það sem Alþingi gefur upp um þau mál sem bíða 1. umr. Auðvitað eru mál í nefndum en þetta er það sem bíður umræðu. Ég hefði viljað að bandormurinn væri kominn fram t.d. varðandi ráðstafanir vegna ársins 2009, ég hefði viljað sjá hann fyrr. Ég hef fengið útskýringar á því hvers vegna hann dregst og gott og vel.

Sú ríkisstjórn sem nú situr hefur setið frá því í febrúar. Vissulega tóku kosningar tíma en þetta er sama ríkisstjórnin. Það liggur á og það er þess vegna sem ég nefndi þetta. Á móti kemur að við höfðum tækifæri til þess að ræða tillögur okkar sjálfstæðismanna í dag og fyrir það erum við þakklát. Ég ítreka að við erum mjög ánægð með þau viðbrögð sem komið hafa fram hjá hv. þingmönnum varðandi þessa umræðu, okkur hefur fundist þetta vera málefnaleg umræða. Það rekur á eftir okkur, bæði sjálfstæðismönnum og öðrum þingmönnum, að við nýtum vel þann tíma sem við höfum á þingi í sumar til þess að ná að klára öll þessi ákaflega mikilvægu mál sem þarf að ljúka til þess að við getum tekist á við þann mikla vanda sem þjóðin stendur nú frammi fyrir. Nú er lag og við eigum að nota okkur það.