137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

nauðsynlegar aðgerðir vegna alvarlegs ástands efnahagsmála.

88. mál
[16:35]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski ekki rétt að kalla það andsvar sem ég ætla að flytja hér, meðsvar frekar, því að ég tek undir það sem hv. þm. Illugi Gunnarsson sagði áðan að þetta væri þarft innlegg í þá umræðu sem nú fer fram um ríkisfjármálin eða fjárhagsrammans sem við stöndum frammi fyrir að þurfa að endurskoða fram að áramótum og fram í næsta árið. Það er mikið verkefni og ekki auðunnið og veitir ekki af sem flestum tillögum og hugmyndum hvað það varðar. Ég lít á þetta mál þingmanna sjálfstæðismanna sem gott innlegg í þá vinnu, ég tek þessa tillögu mjög alvarlega sem slíka og með mjög jákvæðum hætti og trúi því í einlægni að það fylgi góður hugur að baki.

Eins og komið hefur fram í umræðunni í dag hefur stjórnarandstaðan verið boðin að þessu borði, þ.e. að viðræðum og umræðum um efnahagsmál og tillögur sem verið er að reyna að vinna og undirbúa hér varðandi þann mikla vanda sem við okkur blasir og allir vita hver er. Það veitir svo sannarlega ekki af hvatningu frá öllum, jafnt á þingi sem utan þings við að reyna að landa þeim málum. Í því ljósi vil ég líta á þessa tillögu sem gott innlegg og þarft í það verk og ég mun hvetja til þess á þeim vettvangi sem ég kem að þessum málum að allar góðar hugmyndir verði vel þegnar og teknar til gaumgæfilegrar athugunar.