137. löggjafarþing — 18. fundur,  11. júní 2009.

veitingastaðir, gististaðir og skemmtanahald.

20. mál
[16:39]
Horfa

Flm. (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég flyt hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007.

Frumvarp þetta felur í sér að felld verður brott undanþáguheimild til nektarsýninga í atvinnuskyni á veitingastöðum og þá stæði eftir fortakslaust bann við því að bjóða upp á nektarsýningar eða gera með öðrum hætti út á nekt starfsmanna eða annarra sem á staðnum eru.

Segja má að þetta frumvarp sé góðkunningi af því að ekki er verið að flytja það í fyrsta sinn. Það var flutt fyrst á 135. löggjafarþingi og þá var Kolbrún Halldórsdóttir, þáverandi þingmaður, 1. flutningsmaður þess. Það hlaut ekki afgreiðslu þá. Málið var endurflutt á síðasta löggjafarþingi og því var vísað til allsherjarnefndar og var afgreitt þar 30. mars sl. svo það er ekki langt síðan. Nefndin mælti með því að frumvarpið yrði samþykkt með þeirri breytingu að lögin tækju gildi 1. september 2009 þannig að það gæfist smáaðlögunarfrestur. Málið komst þó ekki til 2. umr. og er því endurflutt núna.

Það sem er kannski merkilegt frá því að málið var flutt í fyrsta og annað sinn er að nú eru flutningsmenn tillögunnar úr öllum flokkum. Svo var ekki upphaflega. Núna eru þingmenn bæði frá Sjálfstæðisflokki og Borgarahreyfingunni, sem ekki hefur átt þingmenn áður, á tillögunni. Flutningsmenn fyrir utan þá er hér stendur eru hv. þingmenn Atli Gíslason, Ásta R. Jóhannesdóttir, Birgitta Jónsdóttir, Eygló Harðardóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Þuríður Backman.

Þegar málið var skoðað á sínum tíma bárust umsagnir frá fjölmörgum aðilum, m.a. frá Alþjóðahúsinu, Jafnréttisstofu, Kvenréttindafélagi Íslands, Kvennaathvarfinu og Rauða krossinum. Þessir aðilar voru mjög jákvæðir og þess ber einnig að geta að enginn þeirra sem tóku ekki afstöðu í umsögnum sínum eða gerðu athugasemdir lýsti sig beinlínis mótfallinn frumvarpinu.

Á sínum tíma, á 133. löggjafarþingi, var farið í heildarendurskoðun á lögum um veitingastaði og gististaði og sú endurskoðun leiddi til þess að lög nr. 85/2007 voru sett. Þá var felldur niður flokkurinn „næturklúbbar“ sem samkvæmt eldri lögum gerði ráð fyrir að legðu aðaláherslu á „áfengisveitingar og sýningu á nektardans í atvinnuskyni“. Með núgildandi lögum eru svokallaðir „umfangsmiklir áfengisveitingastaðir“ allir settir í einn og sama flokkinn. Á slíkum stöðum er hvorki heimilt að bjóða upp á nektarsýningar né með öðrum hætti að gera út á nekt starfsmanna eða annarra sem á staðnum eru, en með þeirri undantekningu þó að ef jákvæðar umsagnir fást frá umsagnaraðilum skv. 10. gr. laganna þá geti leyfisveitandi heimilað nektardans í rekstrarleyfi ef þess er óskað.

Nokkrar umræður urðu um undanþáguákvæðið við 2. umr. um frumvarpið og var upplýst að fulltrúar sveitarfélaganna vildu fá staðfestan þann skilning sinn að nóg væri að einn umsagnaraðili legðist gegn því að nektardans yrði heimilaður í rekstrarleyfi veitingastaðar til þess að synja mætti um leyfið. Sá skilningur er eðlilegur af því að hér er um undanþágu frá meginreglu að ræða og því réttast að skýra hana þröngt. Frá þeim tíma hefur ríkt nokkur óvissa um rekstrarleyfi þriggja veitingastaða á höfuðborgarsvæðinu. Þessir staðir höfðu óskað eftir heimild til að bjóða upp á nektardans í endurnýjuðum rekstrarleyfum sínum. Einn slíkur staður sótti um leyfi til leyfisveitanda, sem er sýslumaðurinn í Kópavogi. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, sem er lögboðinn umsagnaraðili um rekstrarleyfi veitingastaða, lagðist gegn því að leyfið yrði veitt með ýmsum rökum sem lesa má í fylgiskjali með frumvarpinu og því var þessum stað synjað um leyfið. Sú ákvörðun var kærð til dómsmálaráðherra sem felldi úrskurð í málinu 15. maí 2008 og er sá úrskurður einnig fylgiskjal með frumvarpi þessu, virðulegur forseti.

Í úrskurði dómsmálaráðuneytisins eru umsagnir lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, sem á endanum urðu tvær, sagðar hafa verið haldnar verulegum efnislegum annmörkum, sem leiddi til ógildingar ákvörðunar sýslumannsins í Kópavogi. Þá beindi ráðuneytið því til sýslumannsins að hann leitaði eftir nýrri umsögn lögreglustjórans áður en hann tæki leyfið til umfjöllunar á ný. Málinu lyktaði með því að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gaf út nýja umsögn þar sem í ljósi úrskurðar dómsmálaráðuneytisins þótti ekki fært annað en að mæla með því að leyfið yrði veitt.

Á sama tíma hafði borgarráð Reykjavíkurborgar til umfjöllunar endurnýjuð leyfi fyrir þá tvo staði sem eru Reykjavík sem höfðu báðir óskað eftir heimild til að bjóða upp á nektardans. Þegar úrskurður dómsmálaráðuneytisins lá fyrir þótti borgarráði ekki fært annað en að veita jákvæða umsögn og gerði það á fundi sínum 28. ágúst 2008. Í bókun borgarráðs — og ég vil taka það fram, virðulegur forseti, að það er þverpólitískur stuðningur við þessa bókun — er bent á að þessi nýlegi úrskurður dómsmálaráðuneytisins veki upp áleitnar spurningar sem tengjast því að bannið við þessari starfsemi sé gagnslítið horft til úrskurðar dómsmálaráðuneytisins. Og þar segir, með leyfi forseta:

„Í borgarstjórn ríkir þverpólitísk samstaða um að vinna beri gegn klámvæðingu. Því skorar borgarráð á Alþingi Íslendinga að breyta lögum þannig að sem fyrst fáist skýrar lagaheimildir til að koma í veg fyrir starfsemi nektardansstaða.“

Eins og hér má sjá hefur ríkt mjög mikil óvissa um túlkun 4. mgr. 4. gr. laga nr. 85/2007. Að mati flutningsmanna er nauðsynlegt að skýra vel hver vilji löggjafans sé og því er lagt til að undanþáguákvæðið verði fellt brott. Eftir stendur þá fortakslaust bann við því að bjóða upp á nektarsýningar eða að gera með öðrum hætti út á nekt starfsmanna eða annarra sem á staðnum eru.

Kvennahreyfingar hafa einnig látið þetta mál til sín taka og ályktað í anda þessa frumvarps en ég mun ekki gera það frekar að umtalsefni hér.

Virðulegur forseti. Ég vil að endingu segja að það er annað mál sem mér finnst að við ættum að skoða betur í þinginu, og má vera að sú er hér stendur geri það, og það eru hinar nýju reglur sem við settum fyrir ekki löngu síðan um að skemmtistaðir gætu verið opnir alla nóttina. Ef við horfum til annarra Norðurlanda er ljóst að þar eru skemmtistaðir opnir skemur og fólk er því ekki að veltast um á götum og strætum fram eftir allri nóttu. Þetta er nokkuð sem ég tel að við eigum að skoða. Breyta þyrfti þeim kúltúr sem hér viðgengst. Hér fer fólk afar seint út á skemmtistaði og krár og kemur þeim mun seinna heim. Það er mitt mat að þetta ýti undir m.a. fíkniefnaneyslu, það er mjög erfitt að standa í slíku skemmtanahaldi langt fram eftir morgni og erfitt að halda sér vakandi. Ég held að þetta sé ein margra ástæðna fyrir því að fíkniefni eru hér í talsverðu magni í umferð. Ég held að hv. Alþingi ætti að skoða þetta betur og ég mun jafnvel kafa betur ofan í þetta mál.

Ég held að við getum afgreitt þetta frumvarp varðandi nektardansinn hratt og örugglega, það er hefur farið í gegnum umræðu nokkrum sinnum þannig að þetta er góðkunningi og að mínu mati er því óþarfi að liggja mjög lengi yfir þessu máli, virðulegur forseti.