137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

Icesave-samningurinn.

[15:03]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Samkvæmt þeim upplýsingum sem fram hafa komið í fjölmiðlum mun frystingu á eignum Landsbankans í Lundúnum verða aflétt í dag, 15. júní. Það gerist í kjölfar þess að breska þingið hefur fallist á beiðni breskra stjórnvalda þar um og í sjálfu sér er ástæða til að fagna þessum áfanga í samskiptum Íslands og Bretlands vegna þessarar mjög svo ósanngjörnu og óbilgjörnu aðgerðar af þeirra hálfu.

Þótt ástæða sé til að fagna þessum áfanga á málið sér aðra hlið öllu alvarlegri og eftir atvikum dálítið skuggalega. Maður hlýtur að spyrja sig í ljósi þess að því hefur ítrekað verið hafnað að svara bæði í þinginu og í fjölmiðlum hvort ríkisstjórnin hafi fyrir fram, áður en gengið var frá samningum um Icesave-deiluna við bresk og hollensk stjórnvöld, gengið úr skugga um meirihlutastuðning á þinginu. Formaður þingflokks Vinstri grænna hefur neitað að svara þessu afdráttarlaust og þegar blaðamenn hafa ítrekað spurt forustumenn ríkisstjórnarinnar, nú síðast hæstv. forsætisráðherra, vísar hún til þess að þingmenn úr öðrum þingflokkum hljóti að geta komið ríkisstjórninni til bjargar.

Hvers konar staða kemur eiginlega upp í samskiptum við bresk stjórnvöld dagana eftir að þau hafa ákveðið að aflétta frystingunni ef á daginn kemur að ríkisstjórnin fór fram úr sér, gekk ekki úr skugga um meirihlutastuðning á þinginu við þessum mikilvægu samningum? Hver er staða ríkisstjórnarinnar raunverulega í þessu máli? Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: (Forseti hringir.) Hefur verið gengið úr skugga um hér á þinginu hvort meirihlutastuðningur er hjá stjórnarflokkunum við þetta mál og hvernig á að taka á því gagnvart breskum stjórnvöldum ef svo reynist ekki vera?