137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

áætlun um gjaldeyristekjur vegna Icesave.

[15:15]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Veruleikinn er sá að skuldabyrði og greiðslubyrði þjóðarbúsins af efnahagshruninu hafa meira og minna verið metnar og reiknaðar og verið til endurskoðunar alveg síðan í haust. Ef menn hafa fyrir því að lesa fyrstu skýrslu og starfsmannaskýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá því í nóvember er nákvæmlega fjallað um þetta þar. (Gripið fram í.) Síðan hafa menn verið að reyna að reikna og meta stöðuna að þessu leyti, það sem kallað er á enskri tungu sustainability of debt, og hvað varðar lánskjör og lánaskilmála er að sjálfsögðu reynt að ná því fram í samningum bæði um Icesave og við hin Norðurlöndin og annars staðar að þetta sé viðráðanlegt, en það vita allir að þetta verður erfitt.

Hitt verð ég að segja að mér finnst það ekki uppbyggilegt að tala hér um þróunarríki, þriðja heims land, sem hv. þingmaður ætti kannski að afleggja í sínu orðasafni eða Austur-Þýskaland gamla. Ísland er ríkt og þróað land í kreppu (Gripið fram í: Ekki …) en ekki land af þeim toga.