137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

vaxtalækkanir og peningastefnunefnd.

[15:22]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég hvet menn til að skoða rökstuðning peningastefnunefndar þegar hún kynnti niðurstöðu sína á dögunum. Þar tilgreindi hún eina fjóra þætti, ef ég man rétt, sem allir væru þess valdandi að áformin um umtalsverða áframhaldandi vaxtalækkun gengju skemur en vonast hafði verið til. Þar var nefnt sérstaklega að gengisþróun hefði verið óhagstæðari en vænst var, það varð ívið minni afgangur á viðskiptum við útlönd en menn höfðu gert sér vonir um, í þriðja lagi hefði hjöðnun verðbólgu verið hægari en menn vonuðust til og í fjórða lagi voru nefnd ríkisfjármálin og enn væru ekki komin til framkvæmda þau áform þar sem Seðlabankinn þó staðfesti sjálfur að hann hefði ýmsar upplýsingar um. Það hafði Seðlabankinn vegna þess að vinnan var kynnt fyrir bankanum einum tveimur dögum áður en peningamálastefnunefnd tók ákvörðun sína.

Það er nákvæmlega sú vinna sem unnið hefur verið að í samstarfi við aðila vinnumarkaðarins, sveitarfélögin, lífeyrissjóði og fleiri aðila og stjórnarandstaðan hefur síðan, ef ég veit rétt, eitthvað komið að því borði. Það var sameiginleg ósk bæði stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins að stjórnarandstaðan kæmi til þátttöku í því starfi þannig að ég veit ekki betur en a.m.k. í einhverjum mæli hafi fulltrúar stjórnarandstöðunnar sótt fund inni í Karphúsi og fengið í gegnum þingnefndir og með öðrum hætti aðgang að upplýsingum um það sem í vændum er. Þau áform voru kynnt og lágu fyrir með eins skýrum hætti og það gat verið á þessum tímapunkti í aðdraganda ákvörðunar Seðlabankans á sínum tíma og sú áformaða aðlögunarþörf eða þær aðgerðir upp á um 20 milljarða kr. sem í vændum eru hvað varðar árið 2009, drög að þeim aðgerðum lágu þá þegar fyrir.

Ég vil segja að lokum um tímasetningar í þessum efnum að unnið er að því núna og (Forseti hringir.) vonandi næst það að sameina þetta í einum pakka, (Forseti hringir.) frumvarp um ráðstafanir í efnahagsmálum og skýrslu til þingsins og að það komi fram hér í þessari viku.