137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

ESB-aðild.

[15:31]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er nákvæmlega gengið út frá hinu gagnstæða. Það er nákvæmlega unnið samkvæmt hinu gagnstæða þannig að ég skil ekki hvernig hv. þingmaður getur orðað hlutina með þessum hætti „án þess að þing eða þjóð eigi að koma nálægt málinu“. Málið er hér núna á forræði þingsins og uppleggið, ef ég veit rétt, í báðum tillögunum er að það verði íslenska þjóðin að sjálfsögðu sem tekur hina endanlegu ákvörðun í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er ekkert slíkt á ferðinni eins og hv. þingmaður er að ýja hér að.

Hvort forsætisráðherrar Norðurlandanna misskilja eitthvað málið. Mér er ómögulegt að geta mér til um það. Ég held að þeir hljóti að vera sæmilega upplýstir og viti nákvæmlega á hvaða stigi þetta er. (Gripið fram í.)

Hitt er ekkert launungarmál að sumir í þeim hópi og kannski flestir eru miklir áhugamenn um Evrópusambandsaðild og þar á meðal forsætisráðherrar í klúbbnum sem alls ekki koma því máli fram sjálfir eins og Jens Stoltenberg. Hann lýsir sínum persónulega áhuga á því (Forseti hringir.) þó allir þekki stöðuna í þeim efnum í norskum stjórnmálum.