137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

framlagning mála ríkisstjórnarinnar, dagskrá þingsins o.fl.

[15:37]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Í dag er liðinn mánuður frá því að þingið kom saman. Við höfum í allnokkra daga og vikur verið að bíða eftir stóru málunum. Stóru málunum sem voru tilefni þess að við komum saman til þings, málunum sem vörðuðu bráðavandann og við höfum í sjálfu sér beðið viku eftir viku eftir því að á dagskrá þingsins kæmu þessi stóru mál.

Það eru þó nokkur í burðarliðnum en það veldur mér áhyggjum að nú heyrist frá ríkisstjórninni að það muni enn um sinn dragast að koma með málin, bandorminn, langtímaáætlun í ríkisfjármálum, Icesave-málið bíði jafnvel fram yfir helgi vegna þess að forseti hefur stillt upp dagskrá þingsins með þeim hætti að í næstu viku verði fyrst og fremst fundað í nefndum. Ég velti því fyrir mér, virðulegi forseti, hvort það þurfi jafnvel enn og aftur að gera nýja dagskrá fyrir þingið, stilla fundardögum í (Forseti hringir.) næstu viku upp með nýjum hætti í ljósi þess að ríkisstjórninni tekst ekki að koma málunum hingað til þingsins.