137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

framlagning mála ríkisstjórnarinnar, dagskrá þingsins o.fl.

[15:50]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég efast ekki um að allar þær 20 fyrirspurnir sem bíða morgundagsins, og ég á von á því að ég eigi a.m.k. eina þeirra, séu allar afar mikilvægar og við bíðum í ofvæni eftir að heyra ráðherrana svara þeim en það eru önnur mál sem við bíðum meira í ofvæni eftir að fá að ræða. Það er það sem við erum að velta fyrir okkur, hvenær við fáum stóru málin og hvenær við getum farið að ræða það sem fólkið úti á Austurvelli er að kalla eftir með miklum sprengilátum eins og við heyrðum rétt áðan. Þess vegna finnst mér afar athyglisvert að þegar við þingmenn komum og spyrjum virðulegan forseta, sem hefur svarað eftir sinni bestu getu, um stöðu þingmála og skipulag þinghaldsins, þá kemur þingmaður Samfylkingarinnar og segir við okkur að við hefðum misst af tækifærinu, ráðherrarnir hefðu verið í húsinu og við hefðum getað spurt þá. Hvers konar virðing er þetta fyrir þingræðinu? (Forseti hringir.) Ég vil ítreka þetta sem við höfum verið að leggja áherslu á. Það er ekki það að þingmenn vilji ekki gera allt sem þeir geta, við (Forseti hringir.) viljum bara fá að tala um mikilvægu málin.