137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

framlagning mála ríkisstjórnarinnar, dagskrá þingsins o.fl.

[15:51]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég vil ítreka beiðni hv. þingmanna um að hæstv. forseti beiti sér fyrir því að þessi mikilvægu og brýnu mál verði sett á dagskrá sem fyrst. Jafnframt vil ég sérstaklega ítreka það sem hv. þm. Birgitta Jónsdóttir nefndi varðandi upplýsingar til þingsins. Það er náttúrlega ekki hægt við þær aðstæður sem þjóðin er í núna að þingið fái ekki neinar upplýsingar sem máli skipta í grundvallarmálum. Hversu lengi eiga þingmenn að bíða eftir því að fá þær upplýsingar sem eru nauðsynlegar til að taka á þessum stóru málum og má jafnvel túlka það að upplýsingarnar berist ekki sem svo að menn geri ekki ráð fyrir því að skera úr um þessi mál á næstunni? Eða er það virkilega svo að þingmenn eigi að skera úr um mál án þess að hafa fengið upplýsingarnar eða rétt eftir að upplýsingar hafi borist þeim í hendur? Þetta eru ekki forsvaranleg vinnubrögð í því ástandi sem nú ríkir í landinu.