137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[16:31]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langaði að varpa einni spurningu til hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar. Þegar ég heyrði málflutning hans gat ég ekki lesið annað út úr honum en að hann væri einfaldlega mótfallinn þessu strandveiðifrumvarpi þrátt fyrir að hann segði í hinu orðinu að hann væri tilbúinn til að skoða þetta. Í næstu setningu segir hann að við eigum ekki að taka byggðakvótann í þetta. Hann er þá væntanlega fylgjandi frjálsum handfæraveiðum en ef hann vill ekki taka byggðakvótann að hluta í þetta velti ég fyrir mér hvort hv. þingmaður sé ekki fylgjandi fyrningarleiðinni til þess að ná í kvóta til að setja í þetta.

Ég hygg að þarna séum við komin með góðan fylgismann við fyrningarleiðina.