137. löggjafarþing — 19. fundur,  15. júní 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[16:32]
Horfa

Frsm. minni hluta sjútv.- og landbn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er kannski bara við mig að sakast ef ég hef verið svo óskýr í máli að hv. þingmaður geti dregið þá ályktun að ég sé orðinn talsmaður fyrningarleiðarinnar. Ég vænti þess að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason sé það raunar ekki heldur, ekki frekar en ég.

Ég mótmælti þessu frumvarpi vegna þess að við teljum að þetta mál sé einfaldlega vanbúið til þess að taka um það ákvörðun, eins og ég færði ítarlega rök fyrir og við gerum mjög vel grein fyrir í nefndaráliti okkar og er í samræmi við þann málflutning sem var hafður uppi við 1. umr. málsins. Þetta er mál af þeim toga sem hefur greinilega alls konar afleiðingar sem þeir sem lögðu frumvarpið fram sáu augljóslega ekki fyrir. Þá koma í rauninni fram í nefndaráliti meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar áhyggjur af ýmsum þáttum þess máls þó að nefndin treysti sér ekki á þessu stigi til að takast á við þann vanda.

Ég er þeirrar skoðunar að ekki sé skynsamlegt eins og ég gerði grein fyrir að við förum í það að taka núna veiðirétt frá veikustu sjávarbyggðum landsins til að setja inn í þetta fiskveiðistjórnarfyrirkomulag sem hér er lagt til sem er ákaflega vanbúið og vanhugsað. Þess vegna er okkar niðurstaða sú að það sé skynsamlegast að fresta þessu máli, hugsa það betur, skoða betur. Ef niðurstaðan verður sú að innleiða einhverjar slíkar hugmyndir verði það gert að athuguðu máli en ekki með flumbrugangi.